Bílar

Bílaframleiðendur ákærðir vegna lyklalausrar ræsingar

Finnur Thorlacius skrifar
Ræsihnappur í bíl.
Ræsihnappur í bíl.
Allt frá árinu 2003 hafa bílaframleiðendur boðið bíla sína með lyklalausri ræsingu þar sem ýtt er á ræsingarhnapp. Þessi tilhögun getur þó reynst hættuleg þar sem bíleigendur yfirgefa gjarnan bíla sína með lyklana í vasanum og telja með því að bílar þeirra drepi á sér.

Gjarnan er það gert í bílskúrum sem áfastir eru heimilum þeirra og ef ekki drepst á bílunum er hætta á CO2 eitrunum þar sem bílarnir eru ennþá í gangi. Nú hefur verið lögð fram ákæra í Bandaríkjunum til þeirra bílaframleienda sem útbúa bíla sína með þessari tækni. Þessi ákæra er til marks um það að bíleigendur telji þessa þessa lykillausu ræsingartækni algerlega óþarfa, enginn hafi beðið um þessa tækni og að auki sé hún hættuleg. 

Í besta falli óþörf tækni en í versta falli lífshættuleg

Margir bíleigendur hafa ekki skilið til hvers þessi tilhögun var fundin upp þar sem lyklar af bílum þeirra hafi engan tilgang lengur nema til að opna bíla sína og hættara sé við því að þeir týnist vegna tilgangsleysis þeirra.

Meðal þeirra bílaframleiðenda sem eru kærðir nú eru BMW, Mercedes Benz, Fiat-Chrysler, Ford, GM, Honda, Hyundai, Kia, Nissan, Toyota og Volkswagen. Ákærendur segja að þessir framleiðendur selji bíla sína sem örugga bíla, líkt og þeir gerðu með gallaða Takata öryggispúða og gallaða ræsingarsvissa frá General Motors, en staðreyndin sé önnur. 

Hafa þekkt hættuna frá 2003

Ákærendur segja að bílaframleiðendurnir hafi vitað frá árinu 2003 að lykillaus ræsing væri hættuleg og hafi frá upphafi falið í sér hættu á koltvísýringeitrunum. Ennfremur er ákærunni beint að því að bílaframleiðendurnir hafi látið ógert að útbúa þessa bíla með lykillausri ræsingu með afar ódýrum búnaði sem slekkur á vélum þessara bíla sem skildir eru eftir í gangi eftir ákveðinn tíma. Það hafi þeir hinsvegar látið ógert þó svo þannig búnaður myndi aðeins kosta bílaframleiðendurna 13 dollara áhvern bíl, eða innan við 1.700 krónur.

Með því hefði mátt koma í veg fyrir 13 dauðsföll og langtum fleiri eitranir, sem þó leiddu ekki til dauðsfalla. Í ákærunni er krafist bóta fyrir þær fjölskyldur sem orðið hafa fyrir eitrunum, hvort sem þær hafi leitt til dauðsfalla eða ekki. Koltvísýringseitranir sem leiða til dauða og ekki teljast til sjálfsmorða eru 430 talsins í Bandaríkjunum á hverju ári. 






×