Fótbolti

Ronaldo segir þessum kafla lokið

Sindri Sverrisson skrifar
Cristiano Ronaldo lánaðist ekki að landa stórum titli í búningi Al Nassr.
Cristiano Ronaldo lánaðist ekki að landa stórum titli í búningi Al Nassr. Getty/Mohammed Saad

Cristiano Ronaldo virðist hafa spilað sinn síðasta leik fyrir sádiarabíska félagið Al Nassr í gær, þegar hann skoraði sitt 800. mark fyrir félagslið á ferlinum.

Ronaldo og Sadio Mané skoruðu mörk Al Nassr sem mætti Al Fateh í lokaumferð sádiarabísku úrvalsdeildarinnar en urðu að sætta sig við 3-2 tap. Al Nassr endaði í 3. sæti deildarinnar, þrettán stigum á eftir meisturum Al Ittihad.

Innan við klukkutíma eftir að leiknum lauk hafði birst færsla á samfélagsmiðlum Ronaldos þar sem sagði:

„Þessum kafla er lokið. Sagan? Enn verið að skrifa hana. Þakklátur öllum.“

Fleira kom ekki fram en erfitt að skilja þessi orð öðruvísi en að kaflanum hjá Al Nassr sé lokið. Á tveimur og hálfu ári Ronaldo með liðinu lánaðist þessum sigursæla Portúgala ekki að vinna stóran titil sem verður að teljast óvenjulegt á hans ferli.

Ronaldo tjáði sig ekki frekar um framhaldið en samkvæmt Goal er hann einna helst orðaður við bandarísku MLS-deildina og sitt gamla félag Sporting Lissabon í Portúgal. Það er að minnsta kosti ljóst að þessi fertugi leikmaður ætlar sér að halda áfram að spila fótbolta.

Ronaldo er á sínum stað í landsliðshópi Portúgals sem Roberto Martinez valdi fyrir úrslit Þjóðadeildarinnar. Portúgalar mæta þar Þjóðverjum í undanúrslitum á miðvikudaginn í næstu viku en í hinum undanúrslitaleiknum mætast Spánn og Frakkland. Úrslitaleikurinn og leikurinn um 3. sæti fara svo fram 8. júní en allir leikirnir verða í Þýskalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×