Fótbolti

At­hæfi Freys og Eggerts vekur at­hygli í Noregi

Aron Guðmundsson skrifar
Freyr Alexandersson og Eggert Aron Guðmundsson sóttu sigur í greipar FK Haugesund í gær
Freyr Alexandersson og Eggert Aron Guðmundsson sóttu sigur í greipar FK Haugesund í gær Vísir/Samsett mynd

Félags­leg færni Ís­lendinganna Freys Alexanders­sonar, þjálfara norska úr­vals­deildar­liðsins Brann í fót­bolta og Eggerts Arons Guð­munds­sonar, leik­manns liðsins hefur vakið at­hygli hjá fjölmiðlum í Noregi og fengu stuðnings­menn Brann að njóta góðs af því eftir sigur­leik í gær.

Eftir 2-0 sigur á úti­velli gegn FK Hau­gesund í gær ferðaðist Brann liðið aftur heim til Bergen með rútu og svo bíla­ferju hluta leiðar. Það gerðu stuðnings­menn Brann liðsins einnig og sökum úr­slita leiksins voru þeir hinir allra kátustu um borð í ferjunni.

Í frétt Bergens Avisen segir að leik­menn Brann hafi ætlað sér að verja tímanum í ferjunni inni í rútunni í stað þess að spóka sig um í ferjunni meðal stuðnings­manna í gleðinni. Það hafi hins vegar ekki verið raunin hjá Ís­lendingnum Eggerti Aroni Guð­munds­syni sem tók af skarið og heilsaði fyrstu upp á stuðnings­menn.

Eggert Aron hefur byrjað afar vel sem leik­maður Brann eftir að hann gekk í raðir liðsins frá Elfs­borg í Svíþjóð fyrir tíma­bilið og segir í frétt Bergens Avisen að Freyr Alexanders­son, þjálfari Brann liðsins hafi þurft að draga hina leik­menn liðsins úr rútunni.

„Ég sagði við þá að það myndi gera þeim gott að fara aðeins út úr rútunni og fá sér frískt loft og að það væri frábær stemning í ferjunni. Sagði þeim að heilsa upp á fólkið og að þeir mættu síðan fara aftur í rútuna eftir það.“

Ekki allir leik­menn Brann liðsins hafi farið úr rútunni en Eggert Aron gaf sér góðan tíma til þess að tala við stuðnings­menn Brann og gefa eigin­handará­ritanir.

Brann hefur farið vel af stað undir stjórn Freys í norsku úr­vals­deildinni. Liðið er sem stendur í 2.sæti deildarinnar með tuttugu stig, þremur stigum á eftir topp­liði Viking en með leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×