Fréttir í tímaröð

Fréttamynd

Veðjuðu á frekari verð­lækkun Al­vot­ech skömmu áður en gengið rauk upp

Umfang skortsölu með hlutabréf Alvotech hélt áfram að aukast verulega dagana og vikurnar áður en félagið birti uppfærða afkomuspá fyrr í þessum mánuði, sem hefur þýtt að hlutabréfverðið hefur rokið upp, og fjárfestar sem stóðu að þeim viðskiptum munu að óbreyttu taka á sig nokkurt högg. Fjöldi skortseldra hluta í hlutabréfum Alvotech á markaði vestanhafs meira en tífaldaðist á fáeinum mánuðum en þrátt fyrir viðsnúning í gengi bréfa félagsins, sem er núna að bæta við skráningu í Stokkhólmi, er markaðsvirði þess niður um fimmtung á árinu.

Innherji
Fréttamynd

Grein­endur hækka verðmöt sín á Ocu­lis sam­tímis góðum gangi í rann­sóknum

Góður framgangur í þróun og klínískum rannsóknum hjá Oculis hefur þýtt að greinendur erlendra fjármálastofnana hafa margir hverjir á síðustu dögum hækkað nokkuð verðmat sitt á líftæknifélaginu, sem er að þeirra mati verulega undirverðlagt á markaði um þessar mundir. Á það er bent að mikil tækifæri felist í lyfjapípu Oculis en félagið áformar að sækja um markaðsleyfi í Bandaríkjunum á seinni helmingi næsta árs fyrir sitt fyrsta lyf.

Innherji
Fréttamynd

Al­vot­ech bætir við skráningu í Sví­þjóð eftir upp­gjör sem var vel yfir væntingum

Tekjur og rekstrarhagnaður Alvotech á fyrsta fjórðungi var verulega yfir væntingum greinenda, sem þýddi að hlutabréfaverð félagsins hækkaði um meira en tuttugu prósent í viðskiptum á eftirmarkaði í Bandaríkjunum, og hafa stjórnendur félagsins uppfært nokkuð afkomuspána fyrir árið 2025. Félagið hefur jafnframt boðað skráningu og útboð í Svíþjóð síðar í mánuðinum, sem er aðeins um fjögur hundruð milljónir að stærð og því ekki til að afla nýs hlutafjár, og verður útboðsgengið að hámarki í kringum 1.200 krónur á hlut.

Innherji
Fréttamynd

Styrking krónu og verð­fall hluta­bréfa tók eignir sjóðanna niður um 400 milljarða

Skörp gengisstyrking krónunnar gagnvart Bandaríkjadal, ásamt talsverðum verðlækkunum hlutabréfa bæði hér heima og vestanhafs, þýddi að eignir íslensku lífeyrissjóðanna skruppu saman um nærri fjögur hundruð milljarða á aðeins tveimur mánuðum í febrúar og mars. Hlutabréfaverð um allan heim, einkum í Bandaríkjunum þar sem erlendar eignir sjóðanna eru að stórum hluta, féll enn frekar eftir að Bandaríkjaforseti boðaði tollastríð við umheiminn í upphafi apríl en markaðir hafa rétt nokkuð úr kútnum á allra síðustu vikum.

Innherji
Fréttamynd

LSR eigi ekki að „sitja hjá“ við á­kvarðanir fé­laga þar sem sjóðurinn er hlut­hafi

Samtímis víðsjárverðum tímum á alþjóðavettvangi með auknum stríðsrekstri og „uppgangi öfga- og sundrungarafla“ hefur orðið bakslag í umræðu um sjálfbærni, að mati stjórnarformanns LSR, sem hann segir varhugaverða þróun og ganga gegn „eðlilegri skynsemi og öllum meginstraumi vísindalegrar þekkingar.“ Formaðurinn undirstrikar jafnframt að stjórn þessa umsvifamesta lífeyrissjóðs landsins ætli sér ekki að „sitja hjá“ þegar kemur að ákvörðunartöku félaga þar sem LSR er meðal stórra hluthafa.

Innherji
Fréttamynd

AGS telur að stýrivextir gætu lækkað um 250 punkta fram á mitt næsta ár

Verði verðbólgan komin niður í 2,5 prósenta markmið Seðlabankans á seinni helmingi ársins 2026, eins og spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gerir ráð fyrir, þá ætti það að mati sjóðsins að skapa svigrúm fyrir Seðlabankann til að lækka meginvexti sína um samtals 250 punkta næsta eina árið eða svo. AGS tekur vel í ákvörðun Seðlabankans að hefja reglubundin kaup á gjaldeyri, sem er sögð vel tímasett, en brýnir stjórnvöld sem fyrr að kanna kosti þess að dýpka markaðinn fyrir gjaldeyrisafleiður þegar aðstæður leyfa.

Innherji
Fréttamynd

Mjólkur­vinnslan Arna metin á milljarð þegar sjóður Stefnis eignaðist meiri­hluta

Mjólkurvinnslan Arna er verðmetin á nærri einn milljarð króna eftir að framtakssjóður í rekstri Stefnis festi kaup á miklum meirihluta í félaginu undir lok síðasta árs, einkum með því að leggja fyrirtækinu til nýtt hlutafé. Kaupverðið getur hækkað nokkuð nái félagið tilteknum rekstrarmarkmiðum á yfirstandandi ári en fyrir skömmu var nýr framkvæmdastjóri ráðinn til að stýra Örnu í stað stofnandans.

Innherji
Fréttamynd

Heimilar sam­runa og for­stjórinn stígur til hliðar

Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt samruna Samkaupa og Atlögu, áður Heimkaup, en félögin höfðu fengið sérstaka heimild til að byrja að framkvæma sameininguna á meðan hún var til rannsóknar hjá eftirlitinu. Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa undanfarin þrjú ár, segist af því tilefni hafa ákveðið að meta eigin stöðu og því tilkynnt stjórnarformanni að hann ætli að stíga til hliðar.

Innherji
Fréttamynd

Eldis­fyrir­tækið Lax­ey klárar nærri tuttugu milljarða fjár­mögnun

Landeldisfyrirtækið Laxey, sem áformar uppbyggingu á fiskeldisstöð í Vestmannaeyjum með árlegri framleiðslugetu upp á 36 þúsund tonn, hefur lokið við um 35 milljóna evra hlutafjáraukningu ásamt því að gera nýtt langtímasamkomulag við Arion banka um lánsfjármögnun. Félagið stefnir að því að hefja fyrstu slátrun á fiski á haustmánuðum þessa árs sem er í samræmi við upphaflega tímalínu.

Innherji
Fréttamynd

Beinn kostnaður Bláa lónsins vegna jarð­hræringa nálgast um átta milljarða

Lokanir og truflanir vegna ítrekaðra jarðhræringa á Reykjanesskaga frá árslokum 2023 hafa valdið beinum kostnaði fyrir Bláa lónið sem nemur samtals um sjö til átta milljörðum króna, einkum vegna tapaðra tekna og greiddra launa á tímum þegar reksturinn hefur stöðvast. Stjórnarformaður Bláa lónsins segir blikur á lofti varðandi þróun ferðaþjónustunnar á heimsvísu, sem muni að líkindum þýða fækkun ferðamanna til Íslands á þessu ári, og gagnrýnir ráðamenn þjóðarinnar fyrir umræðu sem einkennist alltof oft af því hvernig megi skattleggja atvinnuvegina frekar.

Innherji
Fréttamynd

Tapið minnkaði hjá Akta þegar þóknana­tekjur jukust á krefjandi ári á mörkuðum

Sjóðastýringarfélagið Akta var rekið með um fimmtíu milljóna tapi á liðnu ári, einkum vegna virðislækkunar á verðbréfaeign, en á sama tíma var nokkur aukning í þóknanatekjum og hreinar eignir í stýringu héldust í horfinu á milli ára. Fjárfestingarsjóðir félagsins áttu mismunandi gengi að fagna á árinu 2024, sem var um margt krefjandi á verðbréfamörkuðum, en á meðan gengislækkun og útflæði var hjá helsta hlutabréfasjóði Akta skiluðu sumir sjóðir ávöxtun umfram keppinauta.

Innherji
Fréttamynd

Dropp metið á nærri tvo milljarða þegar sjóðurinn Aldir keypti ráðandi hlut

Fyrirtækið Dropp, sem hefur stækkað hratt undanfarin ár og sérhæfir sig í sendingarþjónustu fyrir netverslanir, var verðmetið á hátt í tvo milljarða króna þegar hinn nýlega stofnaði framtakssjóður Aldir stóð að kaupum á ráðandi eignarhlut í félaginu seint á árinu 2024. Helstu hluthafar sjóðsins, sem fjárfesti í tveimur félögum á liðnu ári, eru lífeyrissjóðir – LSR þar stærstur – og fjárfestingafélög Heiðars Guðjónssonar og viðskiptafélaganna Andra Sveinssonar og Birgis Más Ragnarssonar, en þeir eru jafnframt meðal eigenda rekstrarfélagsins.

Innherji
Fréttamynd

Fjár­festar stækkuðu enn frekar skort­stöðu sína í hluta­bréfum Al­vot­ech

Umfang skortsölu með hlutabréf Alvotech í Nasdaq-kauphöllinni í Bandaríkjunum jókst um fjórðung á fyrstu vikum þessa mánaðar, skömmu eftir birtingu ársuppgjörs og ákvörðunar Bandaríkjaforseta að efna til tollastríðs við umheiminn. Hlutabréfaverð Alvotech, sem er niður um meira en þrjátíu prósent á fáeinum vikum, hefur verið að nálgast sitt lægsta gildi frá því að félaginu var fleytt á markað um sumarið 2022.

Innherji
Fréttamynd

Markaðurinn tals­vert undir­verðlagður og á­fram er út­lit fyrir ó­vissu og óró­leika

Mikil umskipti hafa orðið á skömmum tíma í verðlagningu á félögum í Kauphöllinni, sem var að nálgast jafnvægi í byrjun ársins, en eftir að „eldi og brennisteini tók að rigna“ eru fyrirtæki á markaði núna að nýju almennt verulega vanmetin, samkvæmt hlutabréfagreinanda. Hann telur líklegt að óvissa og óróleiki muni einkenna hlutabréfamarkaði næstu misserin og við slíkar aðstæður sé „almennt skynsamlegt“ að auka vægi stöðugra arðgreiðslufélaga í eignasafninu.

Innherji
Fréttamynd

Sjóðurinn IS Haf leiðir fjögurra milljarða hluta­fjáraukningu hjá Thor Land­eldi

Thor Landeldi, sem sérhæfir sig í landeldi á laxi við Þorlákshöfn, hefur lokið við hlutafjáraukningu að upphæð fjóra milljarða króna í lokuðu útboði. Ásamt framtakssjóðnum IS Haf, sem var stærstur í hlutafjárútboðinu, voru aðrir fjárfestar Útgerðarfélag Reykjavíkur og þrír innlendir lífeyrissjóðir en með fjármögnuninni verður hægt að klára næsta áfanga við uppbyggingu 4.750 tonna áframeldis.

Innherji
Fréttamynd

Stærsti hlut­hafinn segir að leigufélagið Alma verði ekki selt inn í Eik

Langsamlega stærsti fjárfestirinn í Eik, sem er jafnframt eigandi að leigufélaginu Ölmu, segir að engin áform séu uppi um að Alma verði selt inn í hið skráða fasteignafélag. Þá hefur stjórnin ekki tekið neina ákvörðun um hvort Eik muni ráðast í útleigu á íbúðum en á nýlegum aðalfundi var samþykkt að tilgangur félagsins sé meðal annars að standa sjálft að uppbyggingu á slíku húsnæði.

Innherji
Fréttamynd

„Brostnar væntingar“ fjár­festa en áhættu­stig Al­vot­ech sam­hliða lækkað mikið

Mikið verðfall á hlutabréfum Alvotech eftir uppfærða afkomuspá endurspeglaði brostnar væntingar fjárfesta, sem um leið losaði út talsvert af skuldsettum stöðum, en þrátt fyrir tímabundnar hraðahindranir undirstrika greinendur að félagið sé á allt öðrum stað en áður og efnahagsreikningurinn orðinn mun „heilbrigðari“. Ný og betri upplýsingagjöf er sögð geta leitt til „þroskaðri umræðu og væntinga“ um Alvotech en markaðsviðskipti Íslandsbanka nefna að ef félagið nær um 350 milljóna dala rekstrarhagnaði á næstu tveimur árum, nokkuð undir útgefinni áætlun, ætti það að skila sér í virkilega góðri ávöxtun.

Innherji
Fréttamynd

Fer lítið fyrir inn­viða­verk­efnum sem eru í sam­ræmi við skyldur líf­eyris­sjóða

Þótt oft sé látið að því liggja í stjórnmálaumræðunni að „hinar og þessar“ brýnu innviðafjárfestingar henti lífeyrissjóðum vel þá fer hins vegar lítið fyrir því, að sögn fráfarandi stjórnarformanns Birtu, að um sé að ræða verkefni sem uppfylla skilyrði um nægjanlega arðsemi. Framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins hefur sjálfur nýlega sagt að stærsta áhættan við mögulegt samstarf opinberra aðila og einkafjárfesta við innviðaverkefni sé hin pólitíska áhætta.

Innherji
Fréttamynd

EIF verður kjöl­festu­fjár­festir í nýjum 22 milljarða fram­taks­sjóði hjá Alfa

Alfa Framtak hefur klárað fjármögnun á nýjum 22 milljarða framtakssjóði, sem getur stækkað enn frekar, en til viðbótar við breiðan hóp íslenskra stofnana- og fagfjárfesta er Evrópski fjárfestingarsjóðurinn (EIF) meðal kjölfestufjárfesta með um tuttugu prósenta hlutdeild. Þetta er í fyrsta sinn sem erlendir fjárfestar koma að stofnun á íslenskum framtakssjóði en áætlað er að sjóðurinn hjá Alfa muni koma að fjárfestingum í átta til tólf fyrirtækjum hér á landi.

Innherji
Fréttamynd

Er­lend út­lán bankanna mögu­lega „van­metin“ skýring á styrkingu krónunnar

Samtímis mikilli aukningu í útlánum bankanna til fyrirtækja í erlendri mynt á undanförnum mánuðum þá hafa þeir selt niður aðrar gjaldeyriseignir, að því er kemur fram í nýrri greiningu, sem kann að vera „vanmetin þáttur“ í gengisstyrkingu krónunnar frá því á haustmánuðum síðasta árs. Í síðustu viku hóf Seðlabankinn regluleg kaup sín á gjaldeyri, sem hafa það að markmiði að efla forðann, en eftir gengishækkun og fjarveru lífeyrissjóða á markaði eru flestir sérfræðingar sammála um að tímasetning bankans sé góð.

Innherji
Fréttamynd

„Verð­tryggða bak­slagið“ tíma­bundið og býst við endur­komu nafn­vaxtalána­kerfis

Eftir mikla ásókn heimila í verðtryggða lánsfjármögnun á tímum hárra vaxta eru teikn á lofti um að „þetta verðtryggða bakslag“ verði skammvinnt samhliða því að verðbólgan fer núna lækkandi, að sögn seðlabankastjóra. Hann telur að við séum að fara sjá endurkomu nafnvaxtalánakerfis, meðal annars vegna áherslu heimila á að byggja upp eigið fé, og bendir á að viðskiptabankarnir vilji sömuleiðis minnka vægi sitt í verðtryggðum útlánum.

Innherji
Fréttamynd

Endur­skoðun á sátt Mílu og SKE tefst vegna kvartana frá Ljós­leiðaranum

Endurskoðun á sátt sem Míla gerði við Samkeppniseftirlitið árið 2022 hefur verið stöðvuð tímabundið eftir að Ljósleiðarinn, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, setti fram kvartanir og sakar innviðafyrirtækið um brot á fjarskiptalögum og samkeppnislögum. Míla hefur hafnað öllum ásökunum keppinautarins en stjórnarmaður hjá fyrirtækinu hafði lýst því yfir undir lok síðasta árs að hún teldi Samkeppniseftirlitið ekki geta komist að annarri niðurstöðu en að fella úr gildi kvaðir á starfsemi Mílu.

Innherji