Innlent

Nú má heita Gúníta Ljósynja Dawn

Jón Þór Stefánsson skrifar
Nú mega foreldrar skíra börn sín Dania eða Deimos, en ekki Hel og Bölmóður.
Nú mega foreldrar skíra börn sín Dania eða Deimos, en ekki Hel og Bölmóður. Getty

Mannanafnanefnd hefur birt tólf nýja úrskurði á vef sínum. Að þessu sinni samþykkir nefndin tíu ný nöfn en hafnar tveimur.

Nefndin samþykkir eru kvenmannsnöfnin Beth, Einsa, Árey, Gúníta, Dawn, Ljósynja, Haukrún, og Dania. Þá samþykkir hún karlmannsnafnið Deimos og kynhlutlausanafnið Frey.

Deimos er smærra af tveimur tunglum Mars. Í grískri goðafræði er Deimos holdgervingur óttans, sonur ástargyðjunnar Afródítu og stríðsguðsins Aresar.

Nöfnin sem nefndin fellst ekki á eru Hel og Bölmóður.

Það er í þriðja skipti sem nefndin hafnar Hel, en það gerðist líka árið 2017 og 2021.

Í úrskurði nefndarinnar er vísað til þessara fyrri úrskurða, en í þeim sagði að orðið hel hefði neikvæða merkingu. Þá er bent á í fyrri úrskurðum að nafnið sé tekið sem dæmi um nafn sem geti orðið nafnbera til ama í greinargerð með lögum um mannanöfn

Samkvæmt Íslenskri orðabók merki sérnafnið Hel „gyðja dauðaríkisins“ í norrænni goðafræði og samnafnið hel „ríki dauðra, bani, dauði“.

„Þess vegna er ljóst að nafnið Hel hefur neikvæða og niðrandi merkingu í málvitund almennings og getur orðið nafnbera til ama,“ segir í úrskurðinum frá 2021.

Bölmóður reynir á sama skilyrði og Hel, um að nafn megi ekki vera nafnbera til ama.

Í úrskurði nefndarinnar er bent á að böl merki „óhamingja eða ólán“. Þá merki nafnorðið bölmóður „hugarástand svartsýni og vonleysi“.

„Nefndin telur að nafnið Bölmóður hafi mjög neikvæða merkingu,“ segir í úrskurðinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×