Fótbolti

Klobbaði eldri bróður sinn á stóra sviðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guela Doue hjá Strasbourg (blá treyja) faðmar hér yngri bróður sinn, Desire Doue hjá PSG, eftir að þeir mættust í frönsku deildinni um helgina.
Guela Doue hjá Strasbourg (blá treyja) faðmar hér yngri bróður sinn, Desire Doue hjá PSG, eftir að þeir mættust í frönsku deildinni um helgina. Getty/ Jean Catuffe

Désiré Doué hefur slegið í gegn á þessu tímabili enda kominn í stórt hlutverk hjá franska stórliðinu Paris Saint Germain.

Hinn nítján ára gamli Doué hefur unnið sig inn í byrjunarlið frönsku meistaranna og hefur staðið sig mjög vel í Meistaradeildinni svo eitthvað sé nefnt.

Paris Saint Germain er fyrir löngu búið að vinna frönsku deildina en mætti Strasbourg um helgina í aðdraganda seinni undanúrslitaleiksins á móti Arsenal í Meistaradeildinni.

Það sem gerði þennan leik PSG og Strasbourg merkilegan fyrir Doué fjölskylduna var að þarna voru bræður að mætast.

Með Strasbourg spilar nefnilega hinn 22 ára gamli Guéla Doué. Hann er því þremur árum eldri en Désiré og spilar sem bakvörður, miðvörður eða varnartengiliður.

Það var því hans verkefni að reyna að hafa gætur á yngri bróður sínum um helgina.

Óhætt er að segja að sá yngri hafi farið illa með eldri bróður hans í fyrri hálfleiknum þegar hann náði meðal annars að klobba hann illilega.

Guéla Doué hló samt síðast því Strasbourg vann leikinn 2-1 og yngri bróðir hans var tekinn út af í hálfleik.

Þeir bræður geta því báðir strítt hvorum öðrum þegar þeir hittast næst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×