Körfubolti

Ný­liðarnir sömdu við danska stelpu með Íslandstengingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cirkeline Rimdal spilar með nýliðum Ármanns í vetur.
Cirkeline Rimdal spilar með nýliðum Ármanns í vetur. @cirkelinerimdal

Ármenningar eru með lið í Bónus deild kvenna í vetur og nýliðarnir eru að styrkja liðið fyrir átökin.

Ármann vann 1. deildina síðasta vetur og verða í deild þeirra bestu í fyrsta sinn í 65 ár.

Körfuknattleiksdeild Ármanns hefur nú samið við danska leikmanninn Cirkeline Rimdal en hún er 26 ára gömul og er uppalin í Köge í Danmörku. Hún er hávaxin, 183 sentimetri á hæð, og spilar sem skotbakvörður eða framherji.

Rimdal hefur leikið með SISU í dönsku úrvalsdeildinni, verið lykilleikmaður í bandarískum háskólaliðum hjá North Dakota State og Eckerd College auk þess að spila á Spáni með ADBA Sanfer.

Rimdal hefur einnig verið hluti af yngri landsliðum Danmerkur og tekið þátt í Evrópumótum.

Rimdal er líka með Íslandstengingu og spilar með fyrrum liðsfélaga á Íslandi. Hún lék með Ragnheiði Björk Einarsdóttur, leikmanni Ármanns, í Eckerd háskólanum. Ragnheiður ætti því að geta kynnt henni fyrir Íslandi og sagt þjálfurum og liðsfélögum sínum meira um hvernig leikmaður Rimdal er.

„Við erum gríðarlega ánægð með að fá Cirkeline til liðs við okkur,“ segir Karl H. Guðlaugsson þjálfari Ármanns við miðla félagsins. „Hún býr yfir miklum hæfileikum, góðu skoti og mikilli reynslu sem mun nýtast vel fyrir komandi átök.“

Rimdal er væntanleg til landsins í byrjun september og mun hefja æfingar með liðinu fljótlega eftir komuna. Einnig mun hún þjálfa yngri flokka hjá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×