Innlent

Olli slysi undir á­hrifum fíkni­efna

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar að störfum í miðbænum.
Lögregluþjónar að störfum í miðbænum. Vísir/Vilhelm

Lögregluþjónar stöðvuðu í gærkvöldi ökumann sem reyndist bæði réttindalaus og undir áhrifum fíkniefna. Var hann stöðvaður eftir að hann hafði valdið slysi og var hann vistaður í fangaklefa í nótt.

Alls gistu fjórir í fangageymslu lögreglunnar í nótt, samkvæmt dagbók Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Í heildina voru 65 mál skráð í kerfi lögreglu frá fimm í gær til fimm í morgun.

Þar kemur meðal annars fram að fleiri ökumenn hafi verið stöðvaðir fyrir að vera undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna og einnig réttindalausir. Þar kemur einnig fram að 23 eigi von á sekt fyrir að leggja ólöglega.

Þá gáfu lögregluþjónar sig að tali við mann sem reyndist vera með fíkniefni á sér. Maðurinn vildi hvorki framvísa skilríkjum né segja til nafns en hann mun hafa orðið samvinnuþýður að endanum og var laus ferða sinni eftir skýrslutöku.

„Tilkynnt um óvelkominn mann. Honum gert að yfirgefa,“ er ein lýsing á málum á borði lögreglu í nótt.

Þá barst tilkynning um ölvaðan mann sem féll af rafmagnshlaupahjóli, ölvaða konu með börn og æstan mann í haldi dyravarða. Lögreglunni barst einnig tilkynningar um lausar þakplötur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×