Viðskipti innlent

Indó skoraði hæst í Sjálf­bærniásnum

Atli Ísleifsson skrifar
Frá pallborðsumræðum fyrr í dag.
Frá pallborðsumræðum fyrr í dag. Óli Már Svavarsson

Sparisjóðurinn Indó mældist hæst fyrirtækja í Sjálfbærniásnum en alls fengu fimmtán fyrirtæki viðurkenningu á viðurkenningarhátíð Sjálfbærniássins í Gestastofu Elliðaárstöðvar í dag. 

Þetta er í annað sinn sem niðurstöður Sjálfbærniássins eru kynntar, en mælikvarðinn byggir á mati almennings á frammistöðu íslenskra fyrirtækja í sjálfbærni.

Í tilkynningu segir að sjálfbærni nái í dag langt út fyrir umhverfismál. „Hún snertir stjórnarhætti, mannauð, upplýsingagjöf, jafnrétti, samfélagsþjónustu, ábyrga fjármálastjórnun, tækni og nýsköpun – og ekki síst traust og gagnsæi. Þess vegna taka fjölbreytt fyrirtæki þátt í verkefninu; úr ólíkum atvinnugreinum en með sameiginlega sýn á samfélagslega ábyrgð. Sjálfbærni er ekki lengur sérsvið – heldur heildræn nálgun á starfsemi og tengsl við samfélagið.

Tryggvi Björn Davíðsson, framkvæmdastjóri indó og einn af stofnendum.Óli Már Svavarsson

Mælingin er svar við vaxandi kröfum viðskiptavina og annarra hagaðila um aukna ábyrgð fyrirtækja. Sjálfbærniásinn er samstarfsverkefni Prósents, Langbrókar og Stjórnvísi, með það að markmiði að efla meðvitund og hvetja til framfara í sjálfbærni.

Að þessu sinni mælist indó efst allra fyrirtækja samkvæmt niðurstöðum almenningskönnunar.“

Á viðurkenningarhátíðinni kynnti Trausti Heiðar Haraldsson, framkvæmdastjóri Prósents, einnig valdar niðurstöður úr íslensku kynslóðamælingunni 2025:

  • 53% einstaklinga telja að áhersla fyrirtækja á sjálfbærni hafi mjög eða frekar mikil áhrif á viðhorf þeirra.
  • Hlutdeildin er hæst í aldurshópnum 18–24 ára: 57%.
  • 40% þjóðarinnar eru líkleg til að sniðganga fyrirtæki sem ekki uppfylla kröfur þeirra um sjálfbærni.

„Það er áhugavert að sjá skýrt afstöðu þjóðarinnar til sjálfbærnimála en 40% þjóðarinnar eru líkleg til að sniðganga fyrirtæki ef þau uppfylla ekki kröfur þeirra um samfélagslega ábyrgð og sjálfbærni. Með þessari mælingu erum við að varpa ljósi á það hvernig almenningur upplifir áherslur fyrirtækja í sjálfbærnimálum. Sjálfbærniásinn gefur þeim tækifæri til að sjá hvernig þau mælast í samanburði við önnur fyrirtæki og geta tekið upplýstar ákvarðanir um framhaldið. Jafnframt viljum við styrkja stöðu neytenda sem áhrifaaðila í þessari vegferð,“ er haft eftir Trausta Haraldssyni, framkvæmdastjóra Prósents.

Markmið Sjálfbærniássins:

  • Veita hlutlausar og samanburðarhæfar upplýsingar um viðhorf almennings til þess hvernig íslensk fyrirtæki standa sig í sjálfbærnimálum.
  • Hvetja fyrirtæki til að leggja meiri áherslu á sjálfbærni og miðla aðgerðum sínum með skýrari hætti.
  • Auka vitund neytenda um mikilvægi sjálfbærni og hvernig þeir geta haft áhrif með eigin kauphegðun.

Lykilmælikvarðar

Ég er ánæg(ð/ður/t) með framlag [fyrirtækis] til að hafa jákvæð áhrif á samfélagið.

Jörðin

[Fyrirtækið] leitast við að lágmarka sóun og losun við framleiðslu og afhendingu á vöru/þjónustu.

Fólkið

[Fyrirtækið] hugar að velferð viðskiptavina sinna við þróun og afhendingu á vörum sínum og þjónustu.

Stjórnarhættir

Stjórnendur [fyrirtækis] eru meðvitaðir um að þeir verði að grípa til aðgerða til að auka sjálfbærni.

Velsæld

[Fyrirtækið] grípur til aðgerða til að vera samfélagslega ábyrgt fyrirtæki.

Kvarðinn sem notast var við er á bilinu 0 til 100 stig þar sem 0-49 stig er talin slæm frammistaða, 50-59 stig meðalgóð frammistaða, 60-69 stig er góð frammistaða og 70 stig og yfir er afbragðsgóð frammistaða.

Sá markaður sem fékk heilt yfir flest stig var flugfélög og sá markaður sem fékk heilt yfir fæst stig var sjávarútvegsfyrirtæki.

Heildarmeðaltal markaða.

Stigalægsta fyrirtækið hlaut 35 stig af 100 mögulegum og stigahæsta fyrirtækið hlaut 85 stig. Það fyrirtæki sem hlaut flest stig allra mældra fyrirtækja er indó með 85 stig. Össur mældist með næsthæstu einkunn, 83 stig og Íslensk erfðagreining sem var sigurvegari Sjálfbærniássins 2024 með þriðju hæstu einkunnina, 79 stig.

Um rannsóknina segir að hún hafi verið framkvæmd af rannsóknarfyrirtækinu Prósenti. 

„Framkvæmdatími var frá janúar til apríl 2025 og var um að ræða netkannanir sem voru sendar á könnunarhóp Prósents.

Frá viðurkenningarhátíðinni í Elliðaárdal í dag. Óli Már Svavarsson

Rannsóknarmódelið á bak við Sjálfbærniásinn

Rannsóknarmódelið samanstendur af sex spurningum sem kanna viðhorf neytenda til frammistöðu fyrirtækja í sjálfbærnimálum. Módelið mælir þá 4 þætti sem The World Economic Forum telja að muni leiða heiminn á sjálfbærari stað. Þessir 4 þættir eru; jörðin, fólkið, stjórnarhættir og velsæld. Spurningar eru úr módeli sem þróað er og sannprófað af Qualtrics, byggt á 27.000 svörum frá 26 löndum og 16 mörkuðum,“ segir í tilkynningunni. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×