Handbolti

„Er þreyttur núna, ég skal bara viður­kenna það“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Ágúst Jóhannsson náði einstökum árangri með Valsliðið á tímabilinu. 
Ágúst Jóhannsson náði einstökum árangri með Valsliðið á tímabilinu.  Vísir/Ívar

Ágúst Jóhannsson segist vera einstaklega stoltur af Valsliðinu sem varð deildarmeistari, Íslandsmeistari og Evrópubikarmeistari á nýafstöðnu tímabili. Hann segist sjálfur vera uppgefinn eftir síðustu vikur.

Valur varð í gærkvöldi Íslandsmeistari í handbolta kvenna þegar liðið vann sigur á Haukum 30-25 og þar með einvígið 3-0. Á dögunum varð Valur síðan Evrópubikarmeistari eftir einvígi við spænska liðið Porrino. Lygilegt og sögulegt tímabil að baki hjá Val. Þetta var þriðja árið í röð þar sem kvennalið Vals verður Íslandsmeistari í handbolta.

„Mér líður gríðarlega vel og það var gott að ná að klára úrslitaeinvígið svona. Ég var samt ekkert endilega viss um það að þetta yrði svona og átti von á erfiðu einvígi. Ég fann það á mér sjálfum og liðinu að við vorum orðin pínu þreytt. Ég er þreyttur núna, ég skal bara viðurkenna það og það verður gott að komast í smá frí.“

Hann segir að hópurinn hafi allt tímabilið lagt mikla áherslu á það að mynda sterka liðsheild.

Ágúst Jóhannsson skráði sig í sögubækurnar líkt og Valsliðið allt.Vísir/Anton Brink

„Ég hef verið að reyna virkja sem flesta leikmenn og að allar hafi sitt hlutverk og hlutverkin hafa verið nokkuð skýr. Við höfum verið í mikið af leikjum, bæði deildin, úrslitakeppnin og svo allir þessir Evrópuleikir. Þessir leikmenn eru ekki bara góðir í handbolta heldur eru þetta feikilega miklir karakterar og hafa alltaf lagt mikla áherslu á það að liðinu gangi vel og sett það í fyrsta sæti.“

Hann að það verði vissulega erfitt að kveðja stelpurnar en Ágúst tekur við karlaliði Vals og stýrir þeim á næsta tímabili.

„Þetta eru blendnar tilfinningar hjá mér, þegar ég er að sjá að þetta er alveg að verða búið og ég hef sennilega stýrt minni síðustu æfingu hjá þeim núna, allavega í bili. En að sama skapi held ég að þær hafi bara mjög gott af því að fá nýjan þjálfara og eins fyrir mig að færa mig yfir á strákana. Ég er í félaginu áfram, hérna hefur mér liðið vel og ég er búinn að vera lengi hérna og hlakka bara til að takast á við það að stýra strákunum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×