Enski boltinn

Sunderland vann milljónaleikinn og komst upp í úrvalsdeildina

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tom Watson kom inn á sem varamaður á 73. mínútu. Á fimmtu mínútu í uppbótartíma skoraði hann markið sem tryggði Sunderland sæti í ensku úrvalsdeildinni eftir átta ára fjarveru.
Tom Watson kom inn á sem varamaður á 73. mínútu. Á fimmtu mínútu í uppbótartíma skoraði hann markið sem tryggði Sunderland sæti í ensku úrvalsdeildinni eftir átta ára fjarveru. getty/Mike Hewitt

Tom Watson skoraði sigurmark Sunderland gegn Sheffield United í uppbótartíma í úrslitaleik umspils um sæti í ensku úrvalsdeildinni á Wembley í dag.

Sunderland lék síðast í ensku úrvalsdeildinni tímabilið 2016-17 en féll svo niður um tvær deildir á tveimur árum. Liðið var fjögur ár í C-deildinni en vann sér sæti í B-deildinni 2022 og hefur leikið þar undanfarin þrjú tímabil.

Sunderland lenti í 4. sæti B-deildarinnar og sló Coventry City út í undanúrslitum umspilsins á dramatískan hátt, 3-2 samanlagt. Á meðan vann Sheffield United Bristol City örugglega, 6-0 samanlagt.

Sheffield United náði forystunni í úrslitaleiknum í dag á 25. mínútu. Eftir snarpa skyndisókn og frábæra stungusendingu frá Gus Hamer lyfti Tyrese Campbell boltanum yfir Anthony Patterson, markvörð Sunderland.

Eliezer Mayenda jafnaði fyrir Sunderland á 76. mínútu og þegar fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma skoraði Watson sigurmark Svörtu kattanna.

Hinn nítján ára Watson lék væntanlega sinn síðasta leik fyrir Sunderland í dag en hann hefur samið við Brighton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×