Enski boltinn

Stór­kost­leg stemning og sætur sigur í síðasta leiknum í Guttagarði

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Iliman Ndiaye skoraði bæði mörkin í leiknum, síðustu mörkin sem karlalið Everton mun skora í Guttagarði.
Iliman Ndiaye skoraði bæði mörkin í leiknum, síðustu mörkin sem karlalið Everton mun skora í Guttagarði. Richard Heathcote/Getty Images

Stórkostleg stemning myndaðist og stóð yfir síðasta leik karlaliðs Everton í Guttagarði, Goodison Park, í 2-0 sigri gegn Southampton. Iliman Ndiaye skoraði bæði mörkin.

Karlalið Everton mun flytja sig yfir á glænýjan leikvang við Bramley-Moor hafnarbakkann á næsta tímabili. Upphaflega átti að rífa hinn 132 ára gamla Goodison Park en eftir að Friedkin-hópurinn tók við eignarhaldi félagsins í desember var ákveðið að rífa ekki þennan sögufræga völl. Kvennalið Everton mun spila þar frá og með næstu leiktíð.

Gríðarlegur fjöldi fólks safnaðist saman fyrir leik og haldin var kveðjuhátíð Guttagarðs. Stemningin sem myndaðist utan vallar fylgdi svo inn á völlinn og Everton fagnaði öruggum sigri.

Iliman Ndiaye braut ísinn á sjöttu mínútu leiksins þegar boltinn barst til hans rétt fyrir utan teig, hann færði sig yfir á vinstri fótinn og afgreiddi færið vel í fjærhornið.

Everton hélt boltanum mun betur, mark var dæmt af Beto eftir hálftíma leik en liðið bætti svo löglegu marki við rétt fyrir hálfleik. Ndiaye var aftur á ferð þar, vann kapphlaup um boltann og kom honum yfir línuna.

Everton fór upp í þrettánda sæti deildarinnar og spilar gegn Newcastle á útivelli í síðustu umferðinni. Southampton er fallið niður um deild, í neðsta sætinu og spilar gegn Arsenal í lokaumferðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×