Fótbolti

„Okkur er al­veg sama núna“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Brennan Johnson segir slakt gengi Tottenham á tímabilinu ekki skipta neinu máli núna.
Brennan Johnson segir slakt gengi Tottenham á tímabilinu ekki skipta neinu máli núna. Catherine Ivill - AMA/Getty Images

„Ég er svo glaður, þetta tímabil hefur verið mjög erfitt, en okkur er alveg sama núna“ sagði Brennan Johnson, leikmaður Tottenham eftir að hafa orðið Evrópudeildarmeistari. 1-0 sigur varð niðurstaðan í úrslitaleiknum gegn Manchester United. Johnson snerti boltann en Luke Shaw átti síðustu snertinguna áður en hann lak yfir línuna.

„Ég veit að ég snerti hann, svo leit ég upp og sá hann í netinu. Algjörlega ólýsanleg tilfinning.“

Hann segir slakan árangur liðsins á tímabilinu ekki skipta neinu máli núna.

„Að enda í sautjánda sæti er alls ekki nógu gott, en við áttum ótrúlegt Evrópuævintýri og stuðningsmennirnir hafa flykkst á bakvið okkur þar. Þeir voru með mun meiri læti en stuðningsmenn United í kvöld, sem hjálpaði okkur mikið í leiknum.“

Brennan Johnson var í boltanum en Luke Shaw snerti hann síðastur. Recine/Getty Images

Johnson var tekinn af velli í seinni hálfleik, sem hann segir hafa verið mjög erfitt, að sitja á bekknum meðan liðið varði forystuna af öllum mætti. Johnson hrósaði þjálfara sínum síðan í hástert.

„Hann hefur skilað sínu. Ef einhvern tíminn var tími fyrir að sleppa míkrafóninum (e. mic drop), er það núna. Ég hlakka til næsta viðtals við hann. Ég get ekki þakkað þjálfaranum nóg, fyrir allt sem hann hefur gert og traustið sem hann hefur sýnt okkur. Sérstaklega í Evrópudeildinni. Hann hafði sérstakt lag á því að koma okkur í gírinn fyrir þá leiki og það skilaði sér“ sagði Johnson að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×