Fótbolti

Segir að Cecilía verði keypt fyrir metverð

Sindri Sverrisson skrifar
Cecilía Rán Rúnarsdóttir var valin besti markvörður ítölsku A-deildarinnar á sinni fyrstu leiktíð í deildinni.
Cecilía Rán Rúnarsdóttir var valin besti markvörður ítölsku A-deildarinnar á sinni fyrstu leiktíð í deildinni. Getty

Landsliðsmarkvörðurinn Cecilía Rán Rúnarsdóttir hefur svo sannarlega slegið í gegn með Inter á sinni fyrstu leiktíð í ítölsku A-deildinni í fótbolta og útlit er fyrir að hún verði áfram í deildinni.

Cecilía kom til Inter að láni frá þýsku meisturunum í Bayern München og hefur spilað svo vel að hún var valin besti markvörður deildarinnar.

Ítalski blaðamaðurinn Mauro Munno, sérfræðingur um kvennafótboltann á Ítalíu en þó sérstaklega um Juventus, fullyrðir á Twitter að Inter sé núna langt komið með að tryggja sér krafta Cecilíu til frambúðar.

Samkvæmt Munno er Inter reiðubúið að greiða Bayern 100.000 evrur fyrir Cecilíu, eða jafnvirði um 15 milljóna króna, sem yrði metverð fyrir markvörð í ítölsku deildinni.

Cecilía fékk á sig 22 mörk í 22 deildarleikjum með Inter á leiktíðinni en hún varði 81 prósent skotanna sem á hana komu. Hún hélt hreinu í 9 af þessum 22 leikjum.

Cecilía, sem er aðeins 21 árs gömul, varði líka tvær af fimm vítaspyrnum sem hún reyndi við.

Lið Inter náði öðru sæti í deildinni en Juventus varð ítalskur meistari.

Cecilía kom til Bayern München árið 2022, eftir að hafa verið á mála hjá Everton og að láni hjá Örebro í Svíþjóð, og hún skrifaði undir samning við Bayern sem gilda átti til 2026. Þessi fyrrverandi markvörður Aftureldingar/Fram og Fylkis hefur þó aðeins leikið einn deildarleik fyrir aðallið Bayern. Hún lék meira með varaliði félagsins en glímdi auk þess við meiðsli og missti af nánast allri leiktíðinni 2023-24 vegna hnémeiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×