Handbolti

Öll höllin æpti nafn Gísla í spennutrylli

Sindri Sverrisson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson varði Þorláksmessu í að ráðast á varnarmenn Kiel.
Gísli Þorgeir Kristjánsson varði Þorláksmessu í að ráðast á varnarmenn Kiel. Getty/Ronny Hartmann

Það var sannkallaður spennutryllir í þýska handboltanum í kvöld þegar Magdeburg og Kiel mættust, og að sjálfsögðu voru Íslendingarnir í Magdeburg áberandi.

Leiknum lauk með jafntefli, 26-26, eftir rosalegar lokamínútur. Magdeburg hafði lent undir, 25-24, en Ómar Ingi Magnússon jafnaði metin og allt ætlaði svo um koll að keyra þegar Gísli Þorgeir Kristjánsson náði að koma Magdeburg yfir, mínútu fyrir leikslok.

Allir í höllinni, sem var þéttsetin af heimamönnum, kyrjuðu nafn Gísla sem allt stefndi í að yrði hetja Magdeburgar-liðsins.

Þegar aðeins tvær sekúndur voru eftir náði Hendrik Pekeler hins vegar að jafna metin fyrir Kiel og tryggja liðinu stig.

Magdeburg tók þó leikhlé og Elvar Örn Jónsson reyndi svo lokaskot frá miðju en Andreas Wolff sá við því í marki gestanna.

Gísli endaði markahæstur hjá Magdeburg ásamt Lukas Mertens með sex mörk auk þess að gefa flestar stoðsendingar, eða einnig sex. Ómar skoraði fjögur mörk og gaf þrjár stoðsendingar, og Elvar skoraði eitt mark.

Hjá Kiel voru Harald Reinkind og Lukas Zerbe markahæstir með sjö mörk hvor.

Magdeburg er áfram á toppnum og hefur ekki tapað leik en þetta var annað jafntefli liðsins. Hina sextán leikina hefur liðið unnið og er með 34 stig, fimm stigum á undan Flensburg sem er í 2. sæti. Kiel jafnaði Füchse Berlín að stigum í 4.-5. sæti með 26 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×