Innlent

Ekkert því til fyrir­stöðu að Ís­land taki þátt í drónakaupum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra segir ekkert því til fyrirstöðu að Ísland taki þátt í drónakaupum Norðurlandanna verði vilji til þess í framtíðinni.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra segir ekkert því til fyrirstöðu að Ísland taki þátt í drónakaupum Norðurlandanna verði vilji til þess í framtíðinni. Vísir/Ívar Fannar

Ekkert er því til fyrirstöðu að Ísland taki þátt í sameiginlegum drónakaupum hinna Norðurlandanna sé vilji til þess. Utanríkisráðuneytið fylgist með framvindu kaupanna.

Þetta sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra í svari við fyrirspurn Bryndísar Haraldsdóttur þingmanns Sjálfstæðisflokksins um norrænt samstarf um kaup á drónum. 

Finnland, Danmörk, Svíþjóð og Noregur sameinuðust í október um að fara í sameiginleg innkaup á drónum. Samstarfið felur einnig í sér aukið samstarf landananna á sviði rannsókna, þróunar, þjálfunar og upplýsingaskipta. 

Bryndís Haraldsdóttir innti utanríkisráðherra eftir því hvers vegna Ísland væri ekki þátttakandi í samstarfinu. Þorgerður Katrín segir Ísland hafa verið þátttakanda í auknu hermálasamstarfi Norðurlandanna, þar á meðal fjölmörgum starfshópum og verkefnum sem þar eru í gangi. 

„Þetta samstarf snýst fyrst og fremst um ómönnuð loftför sem eru hönnuð til að nota í hernaði. Fylgst verður með framvindu þess og hvort það kunni að skapa tækifæri til að byggja upp borgaralega getu sem nýtist íslenskum stofnunum í framtíðinni,“ segir í svari hennar. 

„Óski Ísland síðar eftir því að taka þátt í þessu samstarfi, að hluta eða öllu leyti, stendur ekkert í vegi fyrir því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×