Sport

John Cena hættur að glíma

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Þú getur ekki séð John Cena glíma lengur.
Þú getur ekki séð John Cena glíma lengur. Rich Freeda/WWE via Getty Images

Eftir tæpan aldarfjórðung sem einn frægasti glímukappi heims keppti John Cena sinn síðasta bardaga í nótt.  

John Cena barðist fyrst í WWE árið 2001 og hefur síðan þá verið eitt þekktasta nafnið í bransanum. Klæddur í sínar gallastuttbuxur hefur hann sautján heimsmeistaratitla.

Goðsagnakennt slagorð hans „You Can‘t See Me“ hefur notið mikilla vinsælda meðal aðdáenda WWE en glímukappinn hefur líka gerst frægur fyrir feril sinn sem leikari og tónlistarmaður. 

„Heilt yfir hefur enginn glímukappi dregið fleiri aðdáendur að WWE viðburðum heldur en John Cena“ sagði Brandon Thurston, eigandi og ritstjóri Wrestlenomics tímaritsins.

Störf hans í þágu góðgerðafélaga hafa einnig vakið athygli og þá sérstaklega farsælt samstarf við „Make A Wish“ samtökin, sem uppfylla óskir langveikra barna.

Hinn 48 ára gamli Cena tilkynnti í júlí síðastliðnum að síðasti bardagi hans yrði bardaginn sem fór fram í Washington í Bandaríkjunum í nótt. Hann sagði þá að líkaminn höndlaði álagið ekki lengur og væri að öskra á hann að hætta.

„Þú klúðraðir þessu“

Samkvæmt venju WWE glímunnar tapaði Cena síðasta bardaganum á ferlinum. Tapið er séð sem tákn fyrir kynslóðaskipti og glímukappi að nafni Gunther hlaut heiðurinn sem fylgdi því að fella kónginn.

Aðdáendur Cena voru hins vegar alls ekki ánægðir með hvernig hann kvaddi sviðið í síðasta sinn.

WWE samtökin hafa hlotið töluverða gagnrýni fyrir að sviðsetja bardaga og ákveða, ekki einungis útkomuna, heldur hvernig nákvæmlega bardaginn skuli þróast og enda.

Það virtist vera raunin með síðasta bardaga Cena í nótt. Gunther var margoft búinn að læsa hann í glímubragði á gólfinu en alltaf slapp Cena, nema undir lokin þegar hann brosti breitt og bað dómarann um að stöðva bardagann. Áhorfendur vildu meina að þetta hefði engan veginn verið alvöru glímubardagi, sviðsettur að algjörlega öllu leiti frá upphafi til enda.

„Helvítis kjaftæði“ og „Þú klúðraðir þessu“ heyrðist hrópað úr stúkunni þegar Triple H, skipuleggjandi bardagakvöldsins, greip í míkrafón og flutti ræðu fyrir Cena eftir bardagann. Þá mátti einnig heyra greinilega „A-E-W“ hróp endurtekin en AEW er helsti keppinautur WWE.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×