Fótbolti

Þjálfari til­búinn að hætta og tyrk­neska þjóðin beðin af­sökunar

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Ali Aliyev axlar fulla ábyrgð á sex marka tapi Kasakstan.
Ali Aliyev axlar fulla ábyrgð á sex marka tapi Kasakstan. James Gill - Danehouse/Getty Images

Eftir sex marka töp í gærkvöldi er landsliðsþjálfari Kasakstan tilbúinn að segja starfi sínu lausu og landsliðsmaður Tyrklands hefur beðið þjóðina afsökunar.

Belgía og Spánn unnu með sex mörkum gegn engum í leikjum sínum gegn Kasakstan og Tyrklandi í gærkvöldi.

Menn voru skiljanlega miður sín í gærkvöldi. Þjálfari Kasakstan axlaði fulla ábyrgð á frammistöðu liðsins og bauðst til að hætta.

„Allt sem gerðist hér í dag er mér að kenna. Leikmenn bera enga ábyrgð á þessu, ég axla fulla ábyrgð á þessu stóra tapi. Ég mun núna fara á fund knattspyrnusambandsins og bjóðast til að segja starfi mínu lausu“ sagði Ali Aliyev við Nieuwsblad í Belgíu.

Miðvörður Tyrklands, Merih Demiral, bað þjóð sína innilega afsökunar á tapinu en gekk ekki svo langt að segja starfi sínu lausu.

Merih Demiral er miðvörður tyrkneska landsliðsins. Ahmad Mora/Getty Images

„Ég bið alla í Konya [þar sem leikurinn fór fram] og alla tyrknesku þjóðina afsökunar. Við vorum ekki sjálfum okkur líkir í kvöld og það gerir mig sorgmæddan. Vonandi getum við gert betur í næstu leikjum, við viljum gleyma þessum leik sem fyrst“ sagði Merih Demiral við Fotomac í Tyrklandi eftir tapið á heimavelli.

Tyrkland vann fyrri leikinn í þessu landsliðshléi, 2-3 gegn Georgíu. 

Kasakstan tapaði hins vegar báðum sínum leikjum, fyrri leiknum gegn Wales 0-1. 

Nú þegar hefur einn landsliðsþjálfari misst starf sitt eftir stórt tap í þessum landsliðsglugga, það var Fernando Santos, þjálfari Aserbaísjan sem tapaði 5-0 fyrir Íslandi á föstudaginn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×