Innlent

Ís­jaki stærri en Hall­gríms­kirkja blasti við

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
IMG_1545

Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar flaug fram á borgarísjaka sem var hærri en Hallgrímskirkja í ískönnunarflugi undan ströndum landsins í dag. Ísjakinn var þrjú hundruð metra langur, þrjú hundruð metra breiður og allt að 75 metra hár. Til samanburðar er Hallgrímskirkja 74,5 metrar á hæð.

Landhelgisgæslan greinir frá því í tilkynningu að stjórnstöð hafi ákveðið að áhöfnin á TF-EIR færi í ískönnunarleiðangur á siglingaleiðinni undan Norðvesturlandi, frá Sauðanesi að Hornbjargi, og á veiðislóð norður af Ströndum. Var það vegna þess fjölda ábendinga um borgarís á veiðislóðum og siglingaleiðum á svæðinu.

Þetta er maður og ekki maur.Landhelgisgæslan

Vel viðraði til könnunarflugsins, að því er segir í tilkynningunni, og þegar þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var stutt vestur af Skagatá kom áhöfnin auga á fyrsta borgarísjakann. Stjórnstöðinni var tilkynnt um borgarísinn og í kjölfarið var siglingaviðvörun gefin út enda var ísinn í siglingaleið skipa á þessum slóðum.

„Þyrlusveitin hélt ferð sinni áfram og þegar hún var stödd norður af Hornbjargi varð áhöfnin vör við stóran borgarís í veðurratsjá þyrlunnar en hann var djúpt undan landi. Áhöfnin hélt á staðinn og þegar þyrlan var um 42 sjómílur norður af bjarginu blasti 300 metra langur, 300 metra breiður og allt að 75 metra hár borgarís við áhöfninni,“ segir í tilkynningunni.

Það viðraði vel til ísjakasigs.Landhelgisgæslan

Miðað við stærð íssins og dýpis á svæðinu þóttu áhafnarmeðlimum allar líkur á að ísinn væri strandaður. Áhöfnin notaði tækifærið og hélt stutta æfingu þar sem sigmaður þyrlusveitarinnar seig niður á ísinn og var svo hífður upp stuttu síðar.

Landhelgisgæslan hvetur sjófarendur til að sýna sérstaka aðgát á þessum slóðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×