Skoðun

Byggjum fyrir eldra fólk, ekki ungt

Ólafur Margeirsson skrifar

Þegar fólk hættir að vinna minnka tekjur þess. Hversu mikið er einstaklingsbundið og fer eftir t.d. tekjum og lífeyrissparnaði. Meðalheildarlaun fólks í fullu starfi á mánuði voru um 984.000kr. árið 2024.[1] Á sama tíma voru meðalheildartekjur fólks á ellilífeyrisaldri um 790.000 á mánuði eða um 20% lægri, tæplega 200.000kr á mánuði.[2] Margur einstaklingurinn horfir sjálfsagt á meiri samdrátt sinna tekna, sérstaklega þegar á líður en 75 ára og eldri voru með um 711.000 á mánuði í heildartekjur árið 2024.

Einhvern veginn verður fólk að bregðast við slíkum tekjusamdrætti. Það gæti dregið úr neyslu, farið sjaldnar til Tene. Það gæti líka farið í kröfugöngu og kríað út hærri bætur frá hinu opinbera. En það setur gamla fólkið í andstöðu við yngri kynslóðir sem þurfa að halda hagkerfinu uppi á sama tíma. Friðurinn í samfélaginu er úti sé yngri kynslóðum att gegnt þeim eldri. Það er nóg komið af slíku.

Önnur leið er möguleg, leið sem gerir mörgu eldra fólki mögulegt að viðhalda eða bæta lífsgæði sín þótt tekjurnar minnki. Að sama skapi er leiðin bókstaflega hjálpleg fyrir yngri kynslóðir svo þær eru líklegar til að styðja eldri kynslóðir sem vilja fara þessa leið.

Leiðin er að minnka við sig: flytja úr gömlu, stóru íbúðinni í nýja og minni íbúð.

Ávinningurinn fyrir eldri kynslóðirnar

Tökum dæmi. Jón og Gunna eru roskin hjón sem búa í Hafnarfirði. Þau hafa búið í 120 fermetra fjölbýlisíbúðinni sinni síðan þau eignuðust börnin sín tvö en þau eru nú bæði uppkomin og flutt út. Svefnherbergi barnanna eru tóm og hjónin hafa ekkert við þau að gera þótt annað þeirra sé orðið að hálfgerðri geymslu á dóti sem þau hafa ekki notað í mörg ár. Íbúðin er líka í fjölbýlishúsi án lyftu og mjaðmirnar á Jóni gera honum lífið leitt í hvert skipti sem hann labbar upp og niður stigann. Hann er m.a.s. byrjaður að einangrast, hittir ekki gömlu félagana eins oft og áður því hann kvíðir því að þurfa að berjast við stigann í hvert skipti sem hann fer út. Gunna datt líka í stiganum í fyrra enda ekki eins sterk í fótunum og hún var. Eldhússkáparnir eru líka orðnir óþægilega háir fyrir þau bæði – það getur verið erfitt að teygja sig þegar maður eldist – og þau kvíða fyrir komandi viðhaldi á íbúðinni sem er komin til ára sinna. Þau ágætu hjón ákveða því að leita sér að annarri fjölbýlisíbúð sem hentar þeim betur.

Þau skoða þrjá kosti í nágrenninu. 70fm notuð íbúð með tveimur svefnherbergjum til kaups, 60fm ný íbúð með einu svefnherbergi til kaups og 60fm ný íbúð með einu svefnherbergi til leigu. Báðar 60fm íbúðirnar eru hannaðar með þarfir þeirra í huga: enginn stigi, aðgengi er gott, gólfin eru stöm og eldhússkáparnir lægri svo sitthvað sé nefnt. Kostirnir eru dregnir saman í töflu 1.

Tafla 1 – Kostirnir sem Jón og Gunna standa frammi fyrir

Kostur 1 lítur ódýrastur út á blaði. Hann er líka með aukasvefnherbergi m.v. kosti 2 og 3. En notaða íbúðin er viðhaldsfrekari en þær nýrri – og það er ekkert viðhald sem áhyggjur þarf að hafa af sé íbúðin leigð – og sé hönnunin ekki fullnægjandi, t.d. er varðar aðgengi, getur margt eldra fólk ekki notað hana.

Kostir 2 og 3 eru mun dýrari en kostur 1. En þeir eru langtum ódýrari en Núverandi íbúð, jafnvel þótt fermetraverð sé nærri tvöfalt sé íbúðin keypt. Þær eru minni en margur veit sem reynt hefur að 60fm fyrir einstakling eða par er stærð á íbúð þar sem flestir finna þörfum sínum mætt. Mikilvægast er að þær eru hannaðar með þarfir eldra fólks í huga en það eru hvorki núverandi íbúð né 70fm íbúðin.

Eins og sést fellst töluverður sparnaður í því að minnka við sig. Að sjálfsögðu eru sviðsmyndirnar hér dregnar upp ekki þær einu sem til eru. Það er t.d. til fólk sem er skuldlaust í sinni íbúð. Minnki það við sig hefði það aðgang að enn meira eigin fé til neyslu, frekar en að festa það í steypu, en hér er sett upp. Það er til fólk sem vill ekki taka tillit til fasteignaverðshækkana því það getur ekki neytt þeirra nema selja viðkomandi fasteign. Það er líka til margt fólk sem gæti fundið ódýrari íbúðir en hér er sett upp en tölurnar eru m.a. byggðar á söluverði íbúða í Hafnarfirði og algengu fermetra verði á nýjum íbúðum til sölu á höfuðborgarsvæðinu. Það er fullt af fólki sem býr úti á landi og er að horfa á annars konar verð á fermetra. Fólk getur leikið sér að mismunandi sviðsmyndum sem fellur betur að þeirra eigin aðstæðum.

Punkturinn er að eldra fólk getur fundið töluverðan sparnað í því að minnka við sig. Það getur líka fundið hentugra húsnæði en það býr í í dag: eldri eignir eru fæstar hannaðar með eldra fólk í huga, t.d. þegar kemur að aðgengi (engir stigar, lágir eða engir þröskuldar, stöm gólf, o.s.frv.), öryggi (t.d. stoðstangir, öryggishnappar á klósettum, o.s.frv.) og samfélagsþörfum (t.d. nærri kaffihúsi, félagsheimili, útivistarsvæðum, o.s.frv.).

Það er líka mikilvægt að eldra fólk áttar sig á því að það býr í of stórum íbúðum. Í nýjustu mánaðarskýrslu HMS var eftirfarandi graf sem sýnir svör, eftir aldurshóp, úr könnun sem Prósent gerði fyrir HMS. Það er því afar líklegt að margur eldri einstaklingurinn og pörin vilja minnka við sig, m.a. því þau átta sig á að þau búa í alltof stóru húsnæði. Og þau átta sig á sparnaðinum sem fellst í því að minnka við sig.

Ávinningurinn fyrir yngri kynslóðir og samfélagið allt

Vandinn er að þessar íbúðir í Kostum 2 og 3 eru ekki til: þótt fullt af eldra fólki vildi minnka við sig er það einfaldlega ekki hægt. Það er skortur á litlum íbúðum á landinu öllu nú þegar í dag, sérstaklega íbúðum sem eru hannaðar með þarfir ellilífeyrisþega í huga. Um 90% af íbúðum í byggingu á höfuðborgarsvæðinu eru stærri en 60 fermetrar líkt og HMS bendir á.

Og þetta ástand mun versna ef fram heldur sem horfir. Á næstu 10 árum, skv. miðgildi mannfjöldaspár Hagstofunnar, mun einstaklingum 65 ára og eldri fjölga um ca. 17.000. Það kallar á ríflega 11.000 íbúðir handa þessum einstaklingum sem langflestir búa nú þegar á Íslandi en í íbúðum og húsum sem henta ekki lengur þeirra þörfum eftir því sem þeir eldast. Byggja þyrfti árlega ríflega 1.100 íbúðir, hannaðar með þarfir eldra fólks, til leigu og kaups til að halda í við þá þörf sem við blasir að verði til staðar sökum öldrunar þjóðarinnar. Þetta er hluti þeirra ca. 4.000 íbúða sem þarf að byggja á ári. En við erum ekki að byggja þessar 1.100 íbúðir, við erum þvert á móti að byggja of stórar, of dýrar íbúðir fyrir þjóð hvers konur eignast ekki 2-3 börn hver heldur 1-2 að jafnaði, m.a. vegna þess að húsnæði er svo dýrt.

Við verðum að byggja minni íbúðir en við erum að gera í dag, sérstaklega minni íbúðir hannaðar fyrir eldra fólk. Væri það gert gæti þetta eldra fólk, sem er ekki orðið gamalt, fundið sér ódýrara húsnæði en það ella lifði í héldi það áfram að búa í húsnæðinu sem það býr nú í.

Álíka mikilvægt væri að yngri kynslóðir, sem eiga ekki eins mikið eigið fé og eldri, gætu þá fundið íbúðir á markaði – íbúðirnar sem eldri kynslóðirnar flytja úr þegar þær minnka við sig – sem mættu þeirra þörfum: ódýrar á hvern fermetra, nægilega stórar til að hýsa börnin og þurfi þær viðhald eru meiri líkur á að yngri kynslóðir hafi líkamlega getu til að framkvæma slíkt en hinar eldri. Bæði eldri og yngri kynslóðirnar hagnast því á því að hinar eldri finni hentugt húsnæði fyrir sig.

Munum að ungt fólk hefur almennt ekki efni á að kaupa nýjar íbúðir. Eldra fólk, sem hefur byggt upp eigið fé í eigin íbúð og vill minnka við sig, hefur hins vegar efni á því. En eldra fólk vill ekki flytja úr núverandi íbúðum nema það finni íbúðir sem henta. Og við erum ekki að byggja þessar íbúðir.

Með því að byggja litlar íbúðir, ca. 50-70fm, sem hannaðar væru fyrir eldri kynslóðir næst því m.a. eftirfarandi fram:

1.Ódýrari framfærsla fyrir eldra fólk

2.Minni þrýstingur á opinber fjármál

3.Aukið framboð af hentugum eignum fyrir barnafólk

4.Samfélagslegur friður milli kynslóða

Ef þetta verður ekki gert heldur ástandið á húsnæðismarkaði bara áfram í því fari sem það er.

Höfundur er hagfræðingur


[1] Laun 2024 - Hagstofa Íslands

[2] Tekjur - skattframtöl 2024 - Hagstofa Íslands




Skoðun

Sjá meira


×