Neytendur

Tuttugu tonn af íþróttanammi á sex­tíu dögum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Íþróttanammið er til sölu hjá Bónus og Hagkaupum.
Íþróttanammið er til sölu hjá Bónus og Hagkaupum. Latibær

Á fyrstu sextíu dögum sölu á íþróttanammi Latabæjar í matvöruverslunum seldust um tuttugu tonn. Stofnandi Latabæjar hrósar íslensku þjóðinni fyrir að svara ákalli um aukna neyslu á ávöxtum og grænmeti.

Magnús, sem keypti aftur réttinn að sjónvarpsþáttunum um Latabæ ásamt vörumerki og hugverkaréttindum frá bandaríska sjónvarpsfyrirtækinu Turner, sagði í samtali við Vísi í mars að hann hefði tekið eftir skorti á vörum sem stuðluðu að heilbrigðis mataræði barna.

Hugmyndin kviknaði eftir nýjar ráðleggingar um mataræði frá embætti landlæknis í mars þar sem landsmenn voru hvattir til að takmarka neyslu á rauðu kjöti og mjólk en auka neyslu á grænmeti og ávöxtum.

Latibær fór í kjölfarið með átak fyrir fjölskyldur hér á landi með því að selja grænmeti og ávexti undir vörumerkinu Íþróttanammi.

„Við viljum þakka íslensku þjóðinni, foreldrum og börnum fyrir að svara ákallinu um að auka neyslu á ávöxtum og grænmeti,“ segir Magnús Scheving í tilkynningu.

„Íslenskar fjölskyldur hafa slegið í gegn og eru sigurvegarar sumarsins og hafa aukið neyslu barna sinna á ávöxtum og grænmeti um 20 tonn á 60 dögum og stefna á að ná 100 tonnum á fyrsta árinu, sem er stórsigur fyrir framtíðarheilsu barna.“

Hann hvetur fólk til að velja hollari kostinn og vísar til nestis fyrir börn í skólum í vetur. Þá sé stöðug þróun í framleiðni og framsetningu í verslunum til að betrumbæta magm, gæði og vöruúrval sem henti best. Þannig muni holla nammið í lausasölu hverfa af markaði og frekar raðað í snyrtilegar pakkningar með góðum blöndum.

Þá boðar hann verðlaunaafhendingu í lok mánaðar hjá þeim börnum sem tekið hafa þátt í leik tengdum verkefninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×