Bíó og sjónvarp

Ó­vænt nöfn á könnu Köngulóarmannsins

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Tom Holland, Mark Ruffalo, Jon Bernthal og Michael Mando munu allir leika í næstu mynd um Köngulóarmannin.
Tom Holland, Mark Ruffalo, Jon Bernthal og Michael Mando munu allir leika í næstu mynd um Köngulóarmannin.

Fjórða myndin um Köngulóarmanninn með Tom Holland í aðalhlutverki er farin í framleiðslu og er leikhópurinn stjörnum prýddur. Svo virðist sem Hulk, Punisher og Scorpion muni allir koma við sögu.

Spider-Man: Brand New Day heldur áfram sögu Peter Parker þar sem frá var horfið í Spider-Man: No Way Home (2021) þar sem kappinn krukkaði of mikið í göldrum Herra undarlegs.

Myndin verður frumsýnd í júlí næsta sumar og hófust tökur fyrir myndina nýlega í Glasgow-borg, sem búið er að breyta í New York-líki með bandarískum fánum, lögreglubílum og skólarútum. Í gær birti Sony kitlu á X (Twitter) af nýjum búningi Köngulóarmannsins.

Auk Holland snúa Zendaya og Jacob Batalon aftur sem vinir Parker en þar að auki hafa nokkur stór nöfn verið tilkynnt.

Græna tröllið, sporðdreki og refsari

Nýjustu fréttirnar eru þær að Mark Ruffalo muni snúa aftur sem Bruce Banner/Hulk í myndinni, fjórtán árum eftir að hann gekk til liðs við Marvel í Hefnendunum. Ruffalo hefur leikið Banner í átta Marvel-myndum og kom síðast fyrir í sjónvarpsþáttunum She-Hulk: Attorney at Law og What if...?.

Þá er þegar búið að staðfesta að Michael Mando, sem er þekktastur fyrir leik sinn í Better Call Saul og Breaking Bad, muni snúa aftur sem Mac Gargan/Sporðdrekinn sem hann lék í fyrstu Tom Holland-myndinni, Spider-Man: Homecoming (2017).

Enn annar sem hefur svo verið staðfestur er Jon Bernthal sem andhetjan Punisher sem birtist í fyrsta sinn í kvikmyndaheimi Marvel og í fyrsta sinn á skjánum síðan 2008 þegar Ray Stevenson lék karakterinn í Punisher: War Zone.

Söguþráður myndarinnar liggur ekki enn fyrir en því hefur verið spáð að Köngulóarmaðurinn muni slást við bæði Hulk og Punisher áður en raunverulegt illmennið kemur í ljós. En það eru bara spekúlasjónir.

Hulk, Scorpion og Punisher.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.