Erlent

Araba­ríki og lönd ESB kalla eftir tveggja ríkja lausn og af­vopnun Hamas

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Faisal bin Farhan Al-Saud, utanríkisráðherra Sádí-Arabíu og Jean-Noel Barrot, utanríkisráðherra Frakklands, stýrðu ráðstefnunni.
Faisal bin Farhan Al-Saud, utanríkisráðherra Sádí-Arabíu og Jean-Noel Barrot, utanríkisráðherra Frakklands, stýrðu ráðstefnunni. Getty

Evrópusambandið, Arababandalagið og sautján aðrar þjóðir hafa skrifað undir yfirlýsingu þar sem Ísrael er hvatt til að samþykkja tveggja ríkja lausnina og kallað er eftir því að Hamas leggi niður vopn sín og láti af stjórn Gasa. Utanríkisráðherra Íslands skrifaði jafnframt undir samstarfssamkomulag milli Íslands og Palestínu.

Fulltrúar þessara landa skrifuðu undir sjö blaðsíðna yfirlýsingu sem Frakkland og Sádí-Arabía stóðu að baki á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um tveggja ríkja lausnina í New York frá 27. til 29. júlí.

„Í samhengi þess að binda enda á stríðið í Gasa verður Hamas að binda endi á stjórn sína í Gasa og láta af hendi vopn sín til Palestínskra yfirvalda, með alþjóðlegum skuldbindingum og stuðningi, í samræmi við markmiðið um fullvalda sjálfstætt palestínskt ríki,“ sagði í yfirlýsingunni.

Þá eru árási Hamas á Ísrael þann 7. október 2023 einnig fordæmdar í yfirlýsingunni. Bretar tilkynntu á ráðstefnunni að þeir myndu viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt ríki í september nema Ísrael gangist við tveggja ríkja lausninni. Frakkar höfðu tilkynnt hið sama fyrr í síðustu viku.

Frakkar, sem stýra ráðstefnunni með Sádí-Arabíu, kalla hana „bæði sögulega og fordæmalausa“.

„Í fyrsta skiptið hafa Arabaríki og Miðausturlönd fordæmt Hamas, fordæmt 7. október, kallað eftir afvopnun Hamas, kallað eftir brottrekstri þess úr palestínskri ríkisstjórn og greinilega lýst yfir ætlun sinni að koma samskiptum við Ísrael í eðlilegt horf í framtíðinni,“ sagði Jean-Noel Barrot, utanríkisráðherra Frakklands, um yfirlýsinguna.

Ísrael og Bandaríkjamenn tóku ekki þátt í ráðstefnunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×