Erlent

Boða hertar að­gerðir gegn afbrotaunglingum

Kjartan Kjartansson skrifar
Sænskir lögreglumenn að störfum í Stokkhólmi. Myndin er úr safni og tengist ekki efni fréttarinnar með beinum hætti.
Sænskir lögreglumenn að störfum í Stokkhólmi. Myndin er úr safni og tengist ekki efni fréttarinnar með beinum hætti. Vísir/Getty

Sakhæfisaldur verður lækkaður niður í þrettán ár í aðgerðum sem hægriflokkarnir sem standa að sænsku ríkisstjórninni boða til þess að stemma stigu við afbrotum unglinga. Þá vilja þeir gera lögreglu kleift að beita forvirkum rannsóknarheimildum gegn börnum sem eru yngri en fimmtán ára.

Leiðtogar minnihlutastjórnarinnar og Svíþjóðardemókrata sem verja hana falli skrifa grein í dagblaðið Expressen í dag þar sem þeir segja augljóst réttarvörslukerfið fyrir ungmenni sé gallað. Því ætli ríkisstjórnin að grípa til harðra aðgerða gegn ungum glæpamönnum.

Hluti af þeim er að lækka sakhæfisaldurinn niður í þrettán ár. Það á að gera í áföngum á næstu fimm árum og gilda sérstaklega í alvarlegum glæpum eins og morðum og sérlega hættulegum sprengjuárásum.

Lögreglan gæti einnig fengið auknar heimildir til þess að beita leynilegum og forvirkum aðgerðum gegn börnum sem eru yngri en fimmtán ára.

Sænsk yfirvöld hafa glímt við glæpaöldu þar sem skipulögð glæpasamtök hika ekki við að fá unglinga og ungmenni til þess að fremja morð og sprengjutilræði. Nota samtökin gjarnan samfélagsmiðla til þess að ná til unglinganna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×