Erlent

Trump gerir að­för að stjórn Seðla­bankans

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Cook er virtur hagfræðingur.
Cook er virtur hagfræðingur. Getty/Drew Angerer

Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti í gær að hann ætlaði að reka Lisu Cook, einn stjórnarmanna Seðlabanka Bandaríkjanna. Sérfræðingar efast um að ákvörðun Trump standist lög og Cook hyggst bera málið undir dómstóla.

Trump hefur verið afar óánægður með stjórn bankans og ráðist gegn stjórnarmönnum fyrir að vilja ekki lækka vexti. 

Cook var skipuð í stjórn bankans árið 2022 og er fyrsta svarta konan til að sitja í stjórninni. Forsetinn hefur sakað hana um að hafa falsað gögn til að fá hagfelldari lánakjör en Cook hefur neitað sök.

„Ég mun ekki segja af mér. Ég mun halda áfram að sinna skyldum mínum til að styðja við bandaríska hagkerfið, líkt og ég hef gert frá 2022,“ sagði Cook í yfirlýsingu.

Lögmenn hennar segjast munu grípa til allra þeirra ráða sem þeir geta til að standa vörð um starfið hennar.

Árás Trump gegn Cook er sagður liður í fyrirætlunum hans um að ná meirihluta í stjórn Seðlabankans. Sérfræðingar segja forsetann grafa undan sjálfstæði stofnunarinnar, sem á ekki að lúta valdi hans.

Ásakanirnar gegn Cook koma frá Bill Pulte, yfirmanni Federal Housing Finance Agency, sem hefur meðal annars eftirlit með húsnæðislánasjóðunum Fannie Mae og Freddie Mac.

Pulte hefur sakað Cook um að hafa auðkennt tvær fasteignir sem fast aðsetur sitt á lánagögnum, til þess að tryggja sér betri lánakjör. Pulte vísaði málinu til dómsmálaráðuneytisins, sem hefur hafið rannsókn.

Trump sagðist í kjölfarið myndu láta Cook fjúka ef hún færi ekki af fúsum og frjálsum vilja.

Forsetinn hefur vald til að láta stjórnarmenn Seðlabankans fara en aðeins ef þeir hafa brotið af sér í starfi. Sérfræðingar efast um að ásakanir Pulte dugi til, þar sem Cook hefur ekki hlotið dóm. Þá er málið persónulegs eðlis en varðar ekki störf Cook.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×