Lífið

Fyrsta tón­listar­fólkið á almyrkvahátíðinni kynnt til leiks

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hátíðin fer fram á Hellissandi á næsta ári.
Hátíðin fer fram á Hellissandi á næsta ári. Vísir/Vilhelm

Alþjóðlegir sem íslenskir tónlistarmenn stíga á stokk á fjögurra daga tónlistar- og fræðihátíð á Hellissandi á Snæfellsnesi eftir slétt ár. Emilíana Torrini, GusGus og Daði Freyr eru á meðal innlendra listamanna.

Hátíðin fer fram dagana 15. til 15. ágúst á næsta ár og er kynnt sem menningar- og vísindahátíð undir almyrkva á sólu, Iceland Ecplise Festival. Þann 12. ágúst á næsta ári mun almyrkvi frá sólu sjást á Íslandi í fyrsta sinn í 72 ár. Reiknað er með tugum þúsunda ferðamanna til landsins vegna viðburðarins.

Aðeins fimm þúsund miðar verða þó í boði á hátíðina sem aðstandendur Secret Solstice skipuleggja í samstarfi við bandaríska fyrirtækið Immersive Experiences. Hátíðin hefst með almyrkva á sólu klukkan 17:47 þann dag. Viðburður sem endurtekur sig ekki á Íslandi fyrr en árið 2196.

Á svið hátíðarinnar stíga bæði alþjóðlegir og íslenskir listamenn, þar á meðal Meduza, Berlioz, GusGus, Emilíana Torrini, Booka Shade, Vök, Zero 7, Dave Clarke, RJD2, Exos, Nightmares on Wax, Ryan Crosson, Shaun Reeves, Daði Freyr, Gugusar og Hjálmar.

Fyrirlesarar og gestir koma frá ýmsum sviðum, þar á meðal geimferðum, vísindum, tækni og nýsköpun. Meðal þeirra eru geimfarar frá NASA, ESA, SpaceX, Blue Origin, Space for Humanity og Virgin Galactic, auk fulltrúa frá Sameinuðu þjóðunum, Citizens Foundation, Eden Foundation, Mama Reykjavík og ReWilding Iceland.

Í tilkynningu segir að hátíðin leggi einnig áherslu á „connect“ – dagskrárliði sem tengi fólk saman í gegnum jóga, hugleiðslu, athafnir, náttúrutengingu og sameiginlegar upplifanir. Í samstarfi við alþjóðlega verkefnið Cosmic Pineapple verði boðið upp á jörðuð og skapandi rými með jóga, tónheilun, athöfnum við eld, visku íslenskra og erlendra leiðbeinenda og slökunarsvæði með tónlist og listum í boði Mama Reykjavík.

Markmiðið sé að skapa rými þar sem gestir geti slakað á, hist, tengst og deilt reynslu í afslöppuðu og opnu andrúmslofti. Frekari tíðindi eru boðuð á heimasíðu hátíðarinnar og samfélagsmiðlum @icelandecplise.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.