Viðskipti innlent

Tæpur milljarður í höfundarréttartekjur

Árni Sæberg skrifar
Atli hefur gert það gott á samningu kvikmyndatónlistar, til að mynda fyrir þættina Silo.
Atli hefur gert það gott á samningu kvikmyndatónlistar, til að mynda fyrir þættina Silo. Max Cisotti/Dave Benett/Getty Images

Hagnaður Magnum opus ehf., félags í eigu kvikmyndatónlistarhöfundarins Atla Örvarssonar, nam 764 milljónum króna í fyrra. Höfundarréttartekjur námu tæplega milljarði króna og stjórn leggur til að Atla verði greiddar 410 milljónir króna í arð.

Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi félagsins. Þar kemur einnig fram að rekstrartekjur síðasta árs hafi í heild numið 1,035 milljörðum króna. Mikill meirihluti tekna félagsins samanstendur annars vegar af höfundarréttartekjum og framleiðslu og gerð tónlistar hins vegar. 

Þá segir að afkoma félagsins, fyrir vaxtagreiðslur, og vaxtatekjur, skattgreiðslur og afskriftir, EBITDA, hafi numið 945 milljónum króna. Arðsemi eiginfjár hafi verið 43,81 prósent og eiginfjárhlutfall 89 prósent. Heildareignir í lok árs hafi numið 1,96 milljörðum króna.

Atli, sem heitir fullu nafni Örvarr Atli Örvarsson, hefur getið sér gott orð í heimi kvikmyndatónlistar undafarin ár. Hann samdi til að mynda tónlistina fyrir stórþættina Silo úr smiðju Apple, kvikmyndina Hrúta og myndirnar tvær um lífvörð leigumorðingjans með þeim Samuel L. Jackson og Ryan Reynolds í aðalhlutverkum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×