Innlent

Frystir Face­book hópinn og rýfur tengsl við Sósíalista­flokkinn

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Gunnar Smári Egilsson var formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins í átta ár. Hann var áfram í framboði til framkvæmdastjórnar um helgina en hlaut ekki kjör.
Gunnar Smári Egilsson var formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins í átta ár. Hann var áfram í framboði til framkvæmdastjórnar um helgina en hlaut ekki kjör. Vísir/Arnar

Gunnar Smári Egilsson hefur sett þá sem mest hafa tjáð sig á undanförnum dögum inni á spjallsíðunni Rauða þræðinum í einskonar straff. Hann er sjálfur stjórnandi hópsins, sem áður bar nafnið Sósíalistaflokkur Íslands og hefur þjónað sem nokkurs konar spjallvettvangur fyrir kjósendur flokksins og annarra áhugasamra. Gunnar segir að tími sé kominn til að slíta öll tengsl hópsins við flokkinn.

Mikið hefur gustað um Sósíalistaflokk Íslands eftir aðalfund flokksins um helgina þar sem hópur sem stillti sér upp til höfuðs Gunnari Smára og fylkingu hans hlaut kjör til framkvæmdastjórnar sem og annarra embætta innan flokksins.

Uppþot er kannski rétta orðið yfir þær vendingar sem urðu í kjölfar hallarbyltingarinnar, þar sem rótgrónir meðlimir til margra ára sögðu sig úr flokknum á staðnum og gríðarlegar umræður fóru af stað í áðurnefndum spjallþræði, Rauða þræðinum.

„Sjálfstæður opinn umræðuvettvangur með skuggalega fortíð“

Gunnar Smári Egilsson var formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins í átta ár, og var hann í raun prímusmótor og stofnandi Sósíalistaflokksins. Hann var áfram í framboði til framkvæmdastjórnar um helgina en hlaut ekki kjör.

Gunnar er jafnframt meðal stjórnenda Facebook-hópsins Rauði þráðurinn, sem telur rúmlega þrettán þúsund meðlimi. Aðrir stjórnendur eru Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalistaflokksins í borgarstjórn, fjölmiðillinn Samstöðin, og Sara Stef Hildar, sem tilheyrði þeirri fylkingu sem hlaut ekki brautargengi á aðalfundinum.

Sanna Magdalena var kjörin pólitískur leiðtogi Sósíalistaflokksins um helgina þrátt fyrir að hún hafi opinberlega stutt við bakið á Gunnari Smára og hans fylkingu. Hún sagði sig hins vegar frá öllum trúnaðarstörfum innan flokksins aðeins tveimur dögum síðar og sagði flokksmenn þurfa að finna sér nýjan leiðtoga.

Hún ætlar þó að halda áfram sem oddviti flokksins í borgarstjórn.

Nú stendur til að slíta öll tengsl spjallhópsins á Facebook við Sósíalistaflokkinn. Gunnar Smári tilkynnir um þetta í færslu á síðunni.

Hann segir að hópurinn hafi verið stofnaður árið 2014 undir yfirskriftinni „Ísland - 20. fylki Noregs“ og hafi verið pólitískur gjörningur sem hafi spunnið upp á sig.

Nafninu hafi svo verið breytt í „Sósíalistaflokkur Íslands“ og þá hafi komið í ljós að fólk hefði beðið eftir slíkum flokki, og þá hafi hann beitt sér fyrir stofnun þess flokks.

„Það að nafn hópsins og flokksins væri það sama hafði fleiri galla en kosti. Hér inni eru nú um 13.500 manns en miklum mun færri eru félagar í Sósíalistaflokknum. Eftir sem áður hafa margir látið sem samtalið hér inni sé í reynd eins og félagsfundur í Sósíalistaflokknum.“

Þess vegna hafi nafninu verið breytt í „Rauði þráðurinn“, og öllum tengslum við flokkinn eytt úr lýsingum á hópnum.

„Þetta var gert í tíð fyrri forystu í flokknum og eftir því sem mér skylst er ný forysta sama sinnis. Það er kominn tími til að slíta öll tengsl þessa hóps við flokkinn.“

„Þetta er því sjálfstæður opinn umræðuvettvangur með skuggalega fortíð. Og vonandi verður hann opinn áfram.“

Þá hafi hann sett þau sem mest hafa tjáð sig í hópnum undanfarna daga í einskonar straff, til að auka líkur á því að umræðuvettvangurinn verði opinn og sjálfstæður. Þau sem fyrir því hafa orðið séu því bundin við eina færslu á dag, og eina athugasemd á klukkutímafresti næstu fjórar vikurnar.

Færsla Gunnars í heild sinni:

Sem kunnugt er á þessi hópur sér fortilveru. Ég bjó hann til 2014 undir nafninu Ísland – 20. fylki Noregs og lét sem hann væri umræðuvettvangur Fylkisflokksins, stjórnmálasamtaka sem vildu sameina Ísland inn í Noreg. Þetta var einskonar pólitískur gjörningur sem spann upp á sig. Hér varð lífleg umræða um samanburð á lífskjörum á Íslandi og í Noregi og á öðrum Norðurlöndum. Og samanburðurinn var ekki Íslandi í hag.

Þegar hópurinn dró að sér menn með hugmyndir um yfirburði norrænna manna breytti ég nafni hópsins í Sósíalistaflokkur Íslands. Og þá kom í ljós að margt fólk hafði beðið eftir slíkum flokki og ég beitti mér fyrir stofnun hans. Það að nafn hópsins og flokksins væri það sama hafði fleiri galla en kosti. Hér inni eru nú um 13.500 manns en miklum mun færri eru félagar í Sósíalistaflokknum. Eftir sem áður hafa margir látið sem samtalið hér inni sé í reynd eins og félagsfundur í Sósíalistaflokknum.

Því var nafni hópsins breytt í Rauði þráðurinn og öllum tengslum við flokkinn eytt úr lýsingum á hópnum. Þetta var gert í tíð fyrri forystu í flokknum og eftir því sem mér skylst er ný forysta sama sinnis. Það er kominn tími til að slíta öll tengsl þessa hóps við flokkinn.

Þetta er því sjálfstæður opinn umræðuvettvangur með skuggalega fortíð. Og vonandi verður hann opinn áfram.

Til að auka líkur á því verð ég að setja þau sem hafa mest tjáð sig hér undanfarið í einskonar straff, sem er þó ekki þrengra en svo að fólkið fær að setja inn einn póst á dag og eitt komment á klukkutíma fresti næstu fjórar vikur. Ég ætla mér ekki að lesa alla þræði hér og velja hverjir fara í svona straff. Ég fletti upp þeim 20 sem hafa tjáð sig mest og set þau í straffið.

Vonandi dugar þetta til að spjallið endurfæðist og snúist um áhugaverð mál. Þótt hér séu mikil leiðindi, þá er það engu að síður svo að það hefur gildi að halda úti svona opnu spjallsvæði. Ef þessi aðgerð virkar ekki breyti ég kannski nafni hópsins í Reiði þráðurinn

Ég minni á að fólk getur látið admin vita af póstum og kommentum sem það telur dónaskap og meiðandi. Admin hefur enga möguleika á að lesa allt hér inni. Sendið því ábendingu frekar en að skamma admin. Og munið að allt sem ritað er hér er á ábyrgð þeirra sem það skrifa. Það er alls ekki svo að admin samþykki það sem hér birtist. Þið eruð á eigin vegum. Hegðið ykkur samkvæmt því.


Tengdar fréttir

Setja skorður á tjáningu meðlima til að „kæla aðeins niður hitann“

Framkvæmdastjórn Sósíalistaflokksins hefur ákveðið að takmarka virkni meðlima í Rauða þræðinum við eina færslu á dag og ein ummæli á klukkustund. Forysta flokksins hefur verið sökuð um ólýðræðisleg vinnubrögð en Gunnar Smári segir ákveðinn hóp stefna að Maóískri menningarbyltingu innan flokksins.

Líkir aðal­fundi Sósíalista við War­hammer-útsöluna í Nexus

Guðmundur Hrafn Arngrímsson formaður Leigjendasamtakanna hefur sagt sig úr Sósíalistaflokknum. Hann hefur verið með flokknum frá upphafi og hefur stutt Gunnar Smára Egilsson fyrrverandi formann framkvæmdastjórnar. Hann var staddur á sögulegum aðalfundi þar sem þeir sem eldri voru var sópað út með miklu hópefli. Guðmundur Hrafn segir grasserandi illdeilur og óþol hafa haft yfirhöndina í Sósíalistaflokknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×