Erlent

„Frá­bært“ sím­tal en án niður­stöðu

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump og Vladimír Pútín, forsetar Bandaríkjanna og Rússlands.
Donald Trump og Vladimír Pútín, forsetar Bandaríkjanna og Rússlands. AP

Bæði Donald Trump og Vladimír Pútín, forsetar Bandaríkjanna og Rússlands, segja rúmlega tveggja klukkustunda símtal þeirra hafa gengið vel. Trump, sem segir að tónn símtalsins og andi „frábær“ segir að Rússar og Úkraínumenn muni hefja viðræður um mögulegt vopnahlé og svo í kjölfarið frið. Mögulegt er að þær viðræður fari fram í Vatíkaninu.

Í færslu sem hann skrifaði á samfélagsmiðil sinn sagði Trump að Rússar og Úkraínumenn væru bestir til að ákveða skilyrði fyrir vopnahléi og friði sín á milli, því þeir vissu af smáatriðum sem engir aðrir hafi áttað sig á.

Þá skrifaði Trump að hann og Pútín væru sammála um að auka þyrfti viðskipti Bandaríkjanna og Rússlands til muna, eftir að átökunum lýkur. Mikið svigrúm væri til uppbyggingar í Rússlandi og sömuleiðis í Úkraínu.

Forsetinn vísaði einnig til þess að páfinn hefði sagst hafa áhuga á því að hýsa viðræður Úkraínumanna og Rússa og að þær ættu að hefjast sem fyrst.

Talar enn um „grunnástæður“

Skömmu áður hafði Pútín sagt að símtal hans og Trumps hefði verið opinskátt og gagnlegt. Hann ítrekaði enn eina ferðina að finna þyrfti lausn á „grunnástæðum“ innrásar hans í Úkraínu en Rússar væru hlynntir friði.

Þó sagði hann að friði þyrftu að fylgja umfangsmikil skilyrði. Rússar hafa gert miklar kröfur til Úkraínumanna.

Aðstoðarmaður Pútíns sagði rússneskum blaðamönnum eftir símtalið að forsetarnir hefðu ekkert rætt sín á milli um tímaramma varðandi mögulegt vopnahlé. Trump hafi kallað eftir því sem fyrst en það hafi að öðru leyti ekkert verið rætt.

Þá töluðu þeir einnig um að hittast í persónu en hvenær það gæti orðið liggur ekki fyrir. Aðstoðarmaðurinn sagði einnig að Trump og Pútín hefðu talað saman af virðingu, kallað hvorn annan „Donald“ og „Vladimír“ og að hvorugur þeirra hafi viljað verða fyrstur til að skella á.

Það er Rússa að enda stríðið

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, ræddi við Trump áður en hann og Pútín töluðu saman. Eftir símafundi sagðist Selenskí hafa beðið Trump um að taka ekki neina afdrifaríka ákvörðun án samráðs við Úkraínumenn og að leggja áherslu á að fá Pútín til að samþykkja vopnahléið sem Trump lagði fyrst til.

Þá ítrekaði Selenskí að Úkraínumenn myndu ekki hörfa frá þeim fjórum héruðum sem Rússar hafa innlimað, þó þeir stjórni engu þeirra að fullu.

„Þetta er okkar land. Við munum ekki hörfa frá okkar landi en þetta þýðir að þeir hafa ekki áhuga á friði,“ sagði Selenskí um Rússa. „Ef þeir krefjast þess sem þeir vita að við munum ekki samþykkja.“

Selenskí segist hafa sagt Trump að ef Pútín vildi ekki samþykkja vopnahlé, væri þörf á frekari refsiaðgerðum. Öllum ætti að vera augljóst að það þurfi að þrýsta á Rússa til að fá þá til í að íhuga raunverulegan frið.

„Ef Rússar neita að stöðva drápin, neita að sleppa stríðsföngum og gíslum, ef Pútín leggur fram óraunhæfar kröfur, þýðir það að Rússar munu halda áfram að draga stríðið á langinn, og eiga skilið að Evrópa, Bandaríkin og allur heimurinn hegði sér í samræmi við það, meðal annars með frekari refsiaðgerðum,“ segir Selenskí.

„Rússar þurfa að binda enda á stríðið sem þeir hófu og þeir geta byrjað á því hvað dag sem er. Úkraína hefur alltaf verið tilbúin til friðar.“

Vill mögulega þvo hendur sínar af viðræðum

Það sem þeir Pútín og Trump hafa sagt um samtalið gefur til kynna að Pútín hafi ekki viljað samþykkja þrjátíu daga almenn vopnahlé sem Trump krafðist upprunalega af Pútín og Selenskí. Úkraínumenn hafa samþykkt það en Rússar ekki og hafa ráðamenn Evrópu tekið upp ákallið eftir þessu almenna vopnahléi, sem Pútín hefur ítrekað hafnað.

Ummæli Pútíns gefa til kynna að afstaða hans og kröfur hafi lítið breyst. Þá gefa ummæli Trumps til kynna að hann sé enn ekki tilbúin til að reyna að beita Pútín þrýstingi eins og frekari refsiaðgerðum.

Það að Trump hafi nefnt að Leó páfi hafi sagst viljugur til að hýsa frekari viðræður og að Rússar og Úkraínumenn verði að leysa deilurnar sjálfir gefur einnig til kynna að Trump vilji þvo hendur sínar af þessum viðræðum.

Úkraínumenn segja að vopnahlé verði að nást fyrst, áður en friðarviðræður geti hafist.

Vill ekki þrýsta á Pútín

Eftir símtalið við Pútín ræddi Trump við Selenskí og leiðtoga Bretlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Finnlands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Financial Times hefur eftir heimildarmanni sínum að evrópsku leiðtogarnir hafi veri slegnir yfir lýsingum Trumps á símtalinu við Pútín.

Það hafi verið deginum ljósara að Trump vildi ekki beita Pútín þrýstingi til að reyna að fá hann til að setjast við samningaborðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×