Fótbolti

Kristófer: Þetta var al­veg frá­bær til­finning

Árni Jóhannsson skrifar
Kristófer Ingi komst í færin eftir að hann kom inn á áður en hann náði að skora og bjarga stigi fyrir Breiðablik.
Kristófer Ingi komst í færin eftir að hann kom inn á áður en hann náði að skora og bjarga stigi fyrir Breiðablik. Vísir / Diego

Kristófer Ingi Kristinsson var hetja Breiðabliks þegar hann jafnaði metin á 92. mínútu leiksins þegar Breiðablik og KR skildu jöfn í Kópavogi fyrri í kvöld. Leikið var í 5. umferð Bestu deildar karla og enduðu leikar 3-3 í gjörsamlega frábærum fótboltaleik.

Kristófer mætti í viðtal strax eftir leik á Stöð 2 Sport og var spurður að því hvað Halldór Árna þjálfari sagði við hann. 

„Hann vildi bara fá tvo framherja þarna inn en við þurftum markið. Sem betur fer náði maður að bjarga stiginu hérna í kvöld.“

Hann var beðinn um að lýsa markinu sínu.

„Mig minnir að ég hafi fengið boltann í gegn og ég tekið hann með vinstri og fært boltann á hægri sem ég kláraði færið með. Þetta var alveg frábær tilfinning eftir sex mánuði af erfiðum meiðslum að klára þennan leik með marki eftir að hafa fengið að spila eftir langa fjarveru.“

Í kjölfarið var Kristófer spurður út í ástandið á honum en eins og hann sagði hefur hann verið lengi frá vegna meiðsla.

„Ég er búinn að vera að æfa núna á fullu. Sem betur fer er mjög gott sjúkrateymi í kringum mig og ég er mjög þakklátur fyrir alla sem eru að hjálpa mér. Með mikilli vinnu hef ég komist fyrr á völlinn en útlit var fyrir. Nú þarf maður bara að vinna upp leikform og annað en það kemur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×