Enski boltinn

Real Madrid vill fara í við­ræður við Liverpool um Trent

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Trent Alexander-Arnold fagnar sigurmarki sínu á móti Leicesterr City en þetta gæti verið síðasta mark hans fyrir félagið.
Trent Alexander-Arnold fagnar sigurmarki sínu á móti Leicesterr City en þetta gæti verið síðasta mark hans fyrir félagið. Getty/Liverpool FC

Trent Alexander-Arnold yfirgefur Liverpool þegar samningur hans rennur út í lok júní og fer til Real Madrid á frjálsri sölu. Spænska stórliðið vill þó fá hann fyrr og vill nú viðræður við foráðamenn Liverpool.

Samþykki Liverpool það þá gæti félagið fengið einhverja lágmarksgreiðslu frá Real Madrid en sú upphæð verður þó aldrei mjög há. Staðreyndin er sú að liðið er að missa uppalinn leikmann á besta aldri án þess að fá eitthvað af viti fyrir hann.

ESPN hefur heimildir fyrir því að Real Madrid vilji endilega þessar viðræður en það standi svolítið og falli með áhuga Liverpool sem hefur verið enginn hingað til.

Real Madrid hefur verið í viðræðum við fulltrúa Alexander-Arnold um samning í marga mánuði og það á bara eftir að ganga frá nokkrum lausum endum.

Alexander-Arnold er sagður hafa áhuga á því að komast fyrr til Real Madrid og taka þátt í heimsmeistarakeppni félagsliða í sumar.

Liverpool er búið að tryggja sér Englandsmeistaratitilinn og hefur að engu að keppa í síðustu leikjum tímabilsins.

Samkvæmt frétt ESPN þá telja forráðamenn Real Madrid að það gæti hjálpað Alexander-Arnold að komast fyrr inn í hlutina hjá Real verði hann með liðinu á HM í Bandaríkjunum.

Real Madrid mætir Al Hilal, Pachuca og Salzburg í riðli sínum er leikirnir í riðlakeppninni fara fram frá 18. júní til 26. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×